138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

3. mál
[17:19]
Horfa

Guðrún Erlingsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hugmynd sjálfstæðismanna um skattlagningu inngreiðslu lífeyrissjóðsgreiðslna er að mínu mati aðför að launafólki landsins. Það að leggja þetta fram undir þeim formerkjum að kerfisbreyting sem þessi leggi ekki meiri byrðar á herðar launafólks og lífeyristaka hvorki nú eða síðar er beinlínis röng.

Allir geta verið sammála um nauðsyn þess að að leita allra leiða til þess að auka tekjur ríkissjóðs, ekki síst við þær aðstæður sem hér ríkja í dag. Það er virðingarvert að reyna nýjar leiðir en þessi leið sjálfstæðismanna er ekki fær. Aðilar vinnumarkaðarins sem og lífeyrissjóðirnir hafa skoðað þessa hugmynd og eru sammála um að skattlagning inngreiðslu sé einungis skerðing fyrir eigendur sjóðanna, þ.e. sjóðsfélaga sem greiða 4–8% af launum sínum til þess að tryggja sér lífsviðurværi þegar starfsævinni lýkur. Ég er í raun undrandi á því að sjálfstæðismenn skuli halda þessum hugmyndum til haga þegar ljóst þykir að það leiðarljós sem lagt var af stað með gengur ekki upp.

Það þarf enga hagfræðinga eða aðra stórsnillinga til þess að sjá að 4–8% skattlagning af launum sem áður voru þýðir ekki að sjálfstæðismenn ætli að seilast í buddu heimilanna til þess að sækja þangað meiri skatttekjur. Vissulega ætla þeir að nota þessa skattlagningu til þess að minnka skattlagningu annars staðar og hvaða tilgangi þjónar það?

Látum nú vera þessar tilfærslur úr einum vasa í annan, það er í raun ekki stærsta málið þótt vissulega taki það í budduna. Tillögur sjálfstæðismanna eru í mínum huga til þess fallnar að fresta þynnkunni og hingað til hefur það ekki talist góð aðferð. Þingmenn verða að hafa kjark til að taka á óþægilegum málum. Sækja verður skatttekjur í vasa heimila og fyrirtækja og það er heiðarlegra að gera það strax og takast á við eftirköst hinnar miklu veislu liðinna ára. Því miður verða þeir sem ekki sátu við veisluborðið líka að taka afleiðingum gleðskaparins og bera byrðarnar ásamt þeim sem í veislunni voru. Það er ekki sanngjarnt að leggja meira en orðið er á komandi kynslóðir.

Hvað þýða tillögur sjálfstæðismanna um skattlagningu lífeyrissjóðsgreiðslna? Jú, þær kollvarpa því lífeyrissjóðakerfi sem byggt hefur verið upp undanfarin 40 ár og margar þjóðir hafa horft til. Þær rjúfa þá sátt sem verið hefur milli kynslóða um að hver og ein kynslóð standi undir eigin lífeyri og þjónustu án þess að velta kostnaðinum yfir á þá næstu. Breyting á kerfinu úr sjóðssöfnun í gegnumstreymiskerfi leggur meiri byrði á komandi kynslóðir. Nú er einn ellilífeyrisþegi á hverja sex vinnandi menn, árið 2020 er áætlað að hlutfallið verði einn á móti fjórum og árið 2030 einn á móti þremur. Með tillögum sjálfstæðismanna eiga unga fólkið og börn þessa lands að taka á sig byrðarnar í framtíðinni.

Ég trúi því ekki að það sé raunverulegur vilji neins stjórnmálamanns að skipa málum þannig. Ég kýs að líta svo á að flutningsmenn hafi ekki alveg gert sér grein fyrir því hvað tillaga þeirra þýddi þegar allar hliðar hafa verið skoðaðar. Þær þýða lakari ávöxtun lífeyris. Það munar um þá upphæð sem frestun skattgreiðslu gefur í ávöxtun nokkurra áratuga.

Þær þýða lægri lífeyri til lífeyrisþega í framtíðinni og hærri framlög úr almannatryggingakerfinu þegar til lengdar lætur. Dæmi hafa verið tekin um að 40 ára inngreiðsla á sömu launum með 3,5% ávöxtun þýði í raun 15% skerðingu réttinda.

Þær þýða lokun á núverandi kerfi og uppgjör miðað við áfallna stöðu sjóðanna. Slíkt uppgjör nú þýðir verulega skerðingu réttinda m.a. vegna aldurssamsetningar sjóðfélaga, sem nú er neikvæð, þrátt fyrir að framtíðarstaðan líti betur út. Það segir sig sjálft að gera upp sjóð í dag í því umhverfi og neikvæðu ávöxtun sem ríkir er eingöngu ávísun á skerðingu.

Það er rétt að benda tillöguflytjendum á að almenna lífeyriskerfið gengur í gegnum breytingaferli vegna upptöku aldurstengdrar réttindaávinnslu í stað flatrar. Heyrst hafa tölur um að þetta geti þýtt allt að 25% skerðingu í sumum sjóðum. Þegar umrædd breyting var gerð var gert ráð fyrir að hún tæki nokkra áratugi.

Þessar tillögur sjálfstæðismanna þýða líka að ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna minnkar sem leiðir til þess að þeir hafa ekki sömu möguleika á að taka myndarlega þátt í uppbyggingu og endurreisn þjóðfélagsins

Þær þýða enn meiri mismunun milli lífeyrisréttinda í almenna og opinbera kerfinu. Ef allir landsmenn ættu að sitja við sama borð þyrfti að skerða lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna bæði í A og B deild LSR og lífeyrissjóðum sveitarfélaga. Eru sjálfstæðismenn að boða slíka skerðingu eða er hugmynd þeirra að auka enn á þá mismunun sem felst í lífeyrisréttindum opinberra starfsmanna og launþega á almenna vinnumarkaðnum?

Þau rök sem ég hef lagt fram hér á undan eiga að miklu leyti líka við um skattlagningu inngreiðslna séreignarsparnaðar. Ég hvet sjálfstæðismenn til þess að draga þann hluta tillögunnar til baka sem snýr að skattlagningu inngreiðslna lífeyrissjóðsiðgjalda. Hugmyndin var án efa góðra gjalda verð af hendi hugmyndasmiðanna en reikningurinn sem sendur yrði til komandi kynslóða er með öllu óásættanlegur.