138. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2009.

afskriftir af höfuðstól lána íslenskra heimila og rekstrarfyrirtækja.

4. mál
[15:07]
Horfa

Flm. (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Magnúsi Orra Schram fyrir andsvarið. Ég held að það hafi svo sem alltaf legið fyrir frá því við framsóknarmenn lögðum fram okkar tillögu að hv. þingmaður er ekki sammála þessari aðferðafræði. Það kemur svo sem ekkert á óvart þar. Ég hefði hins vegar mikinn áhuga á því að innan efnahags- og skattanefndar yrði skoðuð t.d. þessi hugmynd að útfærslu sem ég nefndi í lok ræðu minnar varðandi Íbúðalánasjóð og útgáfu skuldabréfs.

Ég hef gífurlegar áhyggjur af greiðsluviljanum, og það mér finnst ekki vera leyst í tillögum hæstv. félagsmálaráðherra, vilja venjulegs íslensks borgara til þess að taka þátt í endurreisn Íslands. Það upplifir maður í samtölum við fólk, bæði fólk sem er í vandræðum og fólk sem getur vel staðið undir sínum greiðslum, að það er reitt. Það upplifir að mjög illa hafi verið farið með það. Það að greiðslubyrði þeirra verði lækkuð, farið verði sem sagt í almennar aðgerðir varðandi það, breytir því ekki að fólkið stendur núna frammi fyrir því að spyrja: Bíddu, hvað ef maki minn deyr? Hvað ef ég vil selja? Það er ekki búið að leysa þau vandamál.

Ég held að við séum algjörlega sammála um þetta, ég og hv. þingmaður, við erum ekki sérstaklega hrifin af verðtryggingunni og því að nota gölluð mælitæki til þess að reikna upp uppbætur á lánin hjá okkur. Það að skipta út einu gölluðu mælitæki fyrir annað, mælitæki sem hefur síðan verið bent á að geti myndað mjög neikvæða hvata í efnahagslífinu, ég á mjög erfitt með að skilja það. (Forseti hringir.) Kannski má vona að í vinnunni innan efnahags- og skattanefndar verði meiri skilningur hjá öllum þegar við verðum búin að skila og vonandi greiða atkvæði (Forseti hringir.) um þessa þingsályktunartillögu.