138. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2009.

afskriftir af höfuðstól lána íslenskra heimila og rekstrarfyrirtækja.

4. mál
[15:55]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Það er með mikilli ánægju að ég stend hér upp í dag og mæli með þessari tillögu, tillögu til þingsályktunar, sem kosningastefnuskrá okkar framsóknarmanna gekk út á, að koma heimilum til hjálpar varðandi skuldsetningu þeirra. Það var svolítið sláandi í dag þegar lagt var til að gera breytingar á dagskrá þings og taka Icesave fram yfir allt annað, enda var það kolfellt og sýnir best á hvaða leið þessi ríkisstjórn er. Þeir keyra einstefnu og það átti að taka Icesave-samninginn fram yfir áður auglýsta dagskrá þingsins, áður auglýsta umræðu um þessa þingsályktunartillögu. Þetta segir meira en nokkur orð. Heimilin og fjölskyldurnar í landinu eru ekki í forgangi hjá ríkisstjórninni en það eru hins vegar sparifjáreigendur í Hollandi og Bretlandi.

Þetta var fellt og við erum komin hingað til að ræða þessa góðu þingsályktunartillögu. Eins og ég sagði áðan komum við framsóknarmenn fram með mjög öflugar og sterkar efnahagstillögur í febrúar og þær voru m.a. grunnurinn að því að við tókum þá ákvörðun að verja þáverandi ríkisstjórn falli, þá vinstri stjórn sem nú stjórnar landinu. Það má vel vera að það hafi verið mikil mistök á sínum tíma að gera þetta, því við trúðum því að þegar svo mikilvægt mál lægi fyrir eins og það að bjarga íslenskum heimilum og fyrirtækjum og koma hér atvinnulífi á stað aftur, þá yrði orðið við þeirri sjálfsögðu ósk okkar og þeirri sjálfsögðu kröfu. En það var ekki þá, það er ekki enn þá núna, því það er allt annað í forgangi hjá þessari ríkisstjórn en heimilin og fjölskyldurnar og hvað þá atvinnulífið. Það er mjög sorglegt á hvaða vegferð þessi ríkisstjórn er.

Það hafa komið nokkrar viðurkenningar á leið okkar sem einn hv. þingmaður sagði nú á sínum tíma þegar við mæltum fyrir þessu hér í sumar að sjónarmið okkar hefðu orðið undir og við ættum að sætta okkur við það, en eins og alþjóð veit eru framsóknarmenn þrautseigir og hér er þessi tillaga komin fram aftur. Það fór nú svo með tillöguna að hún fékkst ekki rædd í nefnd í sumar, því svo mikið lá á að afgreiða bæði ESB-umsókn og Icesave-reikningana, en við skulum vonast til þess að tillagan fái þinglega meðferð núna og verði tekin fyrir, því þetta er alvörutillaga sem við leggjum til. Það verður að leiðrétta höfuðstól á lánum. Fyrirtækin og fjölskyldurnar í landinu geta ekki setið uppi með þennan klafa sem verið er að leggja á okkur. Það verður að hlífa fjölskyldunum. Það verður að hlífa heimilunum. Við verðum að koma þeim til aðstoðar.

Það kom fram athugasemd áðan um að 20% væri jafnvel ekki nóg. Við framsóknarmenn tökum undir það. Þessar tillögur voru lagðar fram í febrúar. Það eru nokkuð margir mánuðir síðan, enda stendur í tillögunni skýrum stöfum að við leggjum til að leiðréttingin verði a.m.k. 20% af höfuðstóli láns. Við erum opin með það ef í ljós kemur eftir útreikninga að hlutfallið þurfi að vera hærra, þá höfum við það að sjálfsögðu hærra.

Ég vil minna á málin eins og þau standa núna, eins og verið er að skuldsetja þjóðina, það er verið að ríkisvæða einkaskuldir einkaaðila sem fóru glæfralega í rekstri og íslenska þjóðin á að sitja uppi með reikninginn. Ég vil minna á að hagkerfið drífur rúmlega 70 þús. manns. Það eru 140 þús. Íslendingar á vinnumarkaði og af því er helmingurinn ríkisstarfsmenn og starfsmenn sveitarfélaga. Hvernig eiga 70 þús. einstaklingar á vinnumarkaði, sem er lítið stærra en meðalstórt fyrirtæki í Bandaríkjunum, að standa undir þessum skuldum öllum? En eins og allir vita eru það skattar aðila á almenna vinnumarkaðnum sem fara í að halda úti ríkisapparatinu og greiða opinberum starfsmönnum laun.

Það verður alltaf að skoða þetta í samhengi. Það þykir mér svo slæmt með þessa ríkisstjórn að það er ekki verið að skoða málin í samhengi. Hægri höndin vinnur á móti þeirri vinstri. Það er alltaf verið að koma með einhverja plástra handa okkur hingað í þingið. Það vantar alveg heildarsýn, enda hvernig má annað vera þegar meðalaldur þeirra sem stjórna þessari ríkisstjórn, meðalþingaldur þeirra er 60 ár? Það vantar hér alveg nýjar tillögur. Það vantar hér mikla hugmyndafræði. Hvar eru ráðgjafarnir, segi ég bara? Hvar er allt þetta unga, öfluga íslenska fólk sem við eigum? Þeir eru greinilega ekki að hjálpa þessari ríkisstjórn, það kemur alla vega ekki fram í máli ríkisstjórnarinnar að það sé verið að þiggja einhverja aðstoð, að það sé verið að koma með einhverjar nýjar leiðir til að koma okkur upp úr þeim stöðnuðu hjólförum sem við erum stödd í.

Það vantar alla nýsköpun í allar þessar hugmyndir. Komi fram nýjar tillögur, nýjar hugmyndir, þá fer af stað her manns að tala þær niður og finna rök á móti þeim. Síðast í gær kom hæstv. fjármálaráðherra með þau rök að það væri ófært að leita til annarra ríkja eftir lánalínu því það væri svo rosalega dýrt að hafa lánalínu virka. Af hverju tekur fjármálaráðherra ekki betur í tillögur okkar og skoðar það sem gott er í þeim fremur en að slá þær svona með afgerandi hætti út af borðinu? Hæstv. fjármálaráðherra þykir líklega betra að taka lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, dæla hingað inn fullt af lánum, til að gera hvað? Jú, styrkja gjaldeyrisforðann, til að krónubréfaeigendur geti losað sitt fjármagn hér á landi.

Það er hreint með ólíkindum að það skuli ekki vera rætt meira á þessum nótum hvers vegna Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er hér á landi og hverra hagsmuna hann gætir. Þetta er allt saman samtvinnað og það er einstefna hér í gangi og ekki hægt að horfa á tillögur annarra flokka. Eins fór fyrir sjálfstæðismönnum. Þeir komu með meiri háttar tillögu að því að innskatta lífeyrissjóðsgreiðslur. Sú tillaga fékk sömu örlög hjá ríkisstjórninni: Bull og þvættingur, þið hafið ekki vit á þessu.

Hvernig er hægt að vinna með svona fólki? Við erum sífellt að bjóðast til þess að vinna með ríkisstjórninni, öll stjórnarandstaðan, en hvernig má það vera að ríkisstjórnin slær á alla putta sem og framréttar hendur? Þau ætla að gera þetta ein hvernig sem þau fara að því. Jú, þau ætla að gera það með aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og alþjóðasamfélagsins sem hefur nú fengið nýnefni, því eftir mínum skilningi þá er eingöngu verið að tala um Evrópusambandið, því það má ekki styggja.

Hæstv. félagsmálaráðherra hefur lagt fram tillögur sem hann telur afar góðar. Bent hefur verið á hvað er að þeim tillögum. Það á að tengja þær við launavísitölu og afskriftirnar koma ekki fyrr en í lok lánstímans og þá ekki fyrr en eftir að þrjú ár eru liðin frá því að lánstíminn er búinn. Ég ætla að benda á það að verði þessi leið farin, þá tapar heil kynslóð sparnaði sínum. Þá er það heil kynslóð sem situr föst í því húsnæði sem hún er í núna. Þessar tillögur frysta fasteignamarkaðinn endanlega. Þarna er verið að festa fólk í því húsnæði sem það er í. Ef frumvarpið verður að lögum eins og hæstv. félagsmálaráðherra boðar, þá getur fólk ekki hreyft sig. Það getur hvorki stækkað né minnkað við sig íbúðarhúsnæði. Það situr fast. Það gengst undir afarsamninga. Það er ekki verið að lengja í lánum eins og var gert í Japan en þetta hefur sömu áhrif, því um leið og allt fer af stað aftur — við framsóknarmenn ætlum að koma öllu af stað aftur. Það veit þjóðin. Við erum atvinnumálaflokkur. Við ætlum að koma hjólum atvinnulífsins af stað á ný án hjálpar ríkisstjórnarinnar, út af því að þeir vilja ekki aðstoð. En þegar launin fara að hækka á ný og ef þessi lán verða bundin við launavísitölu, þá hækka lánin jafnframt um leið og enginn kaupmáttur verður, allur sparnaðurinn og allur ágóðinn og öll kaupmáttaraukningin sem á að verða þegar laun hækka, rennur beint inn í húsnæðislánin. Þannig að allir verða jafnsettir eftir 20 ár þegar þessi kynslóð ætlar að fara að spara. Það er verið að taka sparnaðinn af heilli kynslóð, fólk skal átta sig á því.

Ég er afar stolt af því að þingsályktunartillaga okkar um afskriftir af höfuðstólum lána, a.m.k. 20% af höfuðstóli, skuli vera komin hér (Forseti hringir.) fram á ný. Við framsóknarmenn stöndum við okkar tillögur. Við töluðum svona í kosningabaráttunni. Tillagan er komin fram á ný. Við ætlum að berjast fyrir þessu.