138. löggjafarþing — 14. fundur,  23. okt. 2009.

atvinnu- og skattamál -- samgöngur -- lífeyrissjóðir.

[09:26]
Horfa

Atli Gíslason (Vg):

Frú forseti. Mér hafa fundist árásirnar á hæstv. umhverfisráðherra ómaklegar. Þær hafa runnið mér til rifja. Það hefur líka runnið mér til rifja að menn skuli gagnrýna Hæstarétt fyrir að fara að lögum eins og gert var. Hver skyldi vera tilgangurinn með þessum árásum á umhverfisráðherra, að hún sé að stoppa framkvæmdir í Helguvík og annars staðar á landinu? (Gripið fram í: Snúa við ...) Það er auðvitað verið að draga athyglina frá orsökum og afleiðingum þess sem er að gerast. Sjálfstæðisflokkurinn er að draga athyglina frá kreppunni og hruninu (Gripið fram í.) og þeim sem þar stóðu á bak við. Hvað veldur því að framkvæmdir eru í frosti í dag m.a. í orkuframkvæmdum og stóriðju? Hvað skyldi valda því? Jú, við tókum við 2.300 milljarða skuld, þessi ríkisstjórn sem stofnað var til 1. febrúar. Hvað skyldi valda því að Landsvirkjun fer ekki af stað í Búðarhálsvirkjun? Er það úrskurður umhverfisráðherra? Hvað gengur ykkur til? Búðarhálsvirkjun er tilbúin. Það er hægt að hefja framkvæmdir á morgun. Skyldi það vera að Íslendingar séu tortryggðir á erlendum mörkuðum? Skyldi það vera að Íslendingar fái ekki lánsfé nema á ruslkjörum? Skyldi það vera að lánshæfismat Íslendinga hafi farið í ruslflokk vegna kreppunnar? Skyldi það vera? Skyldi það vera að ríkisstjórnin reyni ekki að endurreisa þetta með því að koma bankakerfinu á koppinn og leysa alþjóðleg deilumál sem við ræðum sem mest þessa dagana? Skyldi það vera? (Gripið fram í.) Orkufyrirtækin eru öll í vandræðum. Þau komast ekki í virkjanir þótt þau fegin vildu. Og ég vil nefna það að hvert starf í álbræðslu í þessari hugmyndasnauðu umræðu sjálfstæðismanna sem minnir mig á stalíníska forsjárhyggju þungaiðnaðarmanna … (Gripið fram í.) Skyldi það vera (Forseti hringir.) að þeir fengju lán? Nei, förum nú í einhverja nýsköpun, sprotafyrirtæki, styrkjum ferðaþjónustuna og leyfum þúsund blómum að blómstra á Íslandi einu sinni.