138. löggjafarþing — 14. fundur,  23. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[10:01]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að viðurkenna að mér er ekki kunnugt um að formaður Samfylkingarinnar hafi átt fund með formanni breska verkamannaflokksins sérstaklega til að ræða þetta mál eða jafnvel af öðru tilefni þó að það hafi auðvitað verið bæði bréfleg samskipti og talað saman í síma. En ég get fullvissað hv. þingmann um það að allir þingmenn og ráðherrar Samfylkingarinnar hafa notað hvert tækifæri sem gefist hefur til að koma þessum skilaboðum og áliti okkar á framfæri við ríkisstjórn Gordons Browns til skila, hvort það er í alþjóðasamskiptum eða annars staðar. Ég er viss um að hæstv. utanríkisráðherra getur staðfest það og tekið undir það að ekkert tækifæri hefur verið látið ónotað til að koma því til skila hversu fyrirlitleg okkur þótti sú aðgerð sem Bretar beittu okkar 8. október 2008.