138. löggjafarþing — 16. fundur,  23. okt. 2009.

aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins.

69. mál
[14:41]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Virðulegur forseti. Ég tek til máls um þetta mál sem hefur verið hér til umræðu í dag og kemur frá hv. félags- og tryggingamálanefnd. Ég vil hefja mál mitt á því að orð mín hér fyrr í dag mátti skilja á þann veg að nefndarmenn í félags- og tryggingamálanefnd væru drifnir áfram af eigin fjárhagslegu hagsmunum. Ef slíkt hefur mátt skiljast hef ég mismælt mig, það var að sjálfsögðu alls ekki ætlun mín að ýja að því.

Í sambandi við þá lagasetningu sem hér er um að ræða er hins vegar verið að demba saman margvíslegum skuldum sem ég tel að eigi ekki samleið í frumvarpinu.

Annað mál varðar þennan nefndarfund í félags- og tryggingamálanefnd sem var hér áðan undir stiganum. Ég sendi félags- og tryggingamálanefnd athugasemdir í 10 liðum í gær, málefnalegar athugasemdir, sem voru ekki teknar fyrir á fundi nefndarinnar vegna þess að ekki var tími til þess. Og það hefur komið fram hér fyrr í umræðunni í dag að þetta mál hefur verið unnið með miklum hraði. Það er engin þörf á því að vinna þetta með miklum hraða, það er hægt að afgreiða það sem gerast á núna um mánaðamótin með einfaldri reglugerð og fjalla betur og ítarlegar um málið ef vilji er til.

Þessar athugasemdir snúa m.a. að því sem kallað er greiðslujöfnunarvísitala. Hér er tekinn meginþorrinn af stærstu skuldum alls almennings í landinu og hann færður inn í nýtt umhverfi, nánast á einu bretti, með einni lagasetningu, inn í umhverfi sem heitir greiðslujöfnunarvísitala. Það er ekki minnst á eða gerð tilraun til greiningar á þessari greiðslujöfnunarvísitölu í þessari lagasetningu. Þessi greiðslujöfnunarvísitala er meingölluð, hún er alveg jafngölluð og vísitala neysluverðs sem notuð var til viðmiðunar áður fyrr. Og það er einfaldlega kominn tími til þess, að mínu viti, að svona vinnubrögð séu öðruvísi. Þetta er risavaxið mál fyrir öll heimili í landinu og mun svo sannarlega hjálpa þeim í bráð, það er enginn vafi á því. Ég met það mikils og það er gott mál en það er verið að demba hér skuldum heimila og einstaklinga inn í umhverfi sem er mjög óljóst og í rauninni ómögulegt að segja til um hvernig endar, í rauninni verr, það er erfiðara að segja til um hvernig það endar eftir þessa lagasetningu en fyrir hana. Það eina sem er vitað er að mánaðarlegar afborganir fólks munu lækka um næstu mánaðamót, en allt hitt er enn þá opið.

Ég vara einfaldlega við því að fara af stað með lagasetningu með þessum hætti. Það þarf að gera hlutina betur og það þarf að hjálpa heimilunum með öðrum hætti en gert er í þessu frumvarpi. Því miður tókst félags- og tryggingamálanefnd ekki að gera það í þessari atrennu, og ekki félagsmálaráðherra. Vonandi tekst Alþingi næst betur upp með að aðstoða heimilin.