138. löggjafarþing — 17. fundur,  2. nóv. 2009.

landnýtingaráætlun fyrir ferðamennsku á miðhálendinu.

19. mál
[18:09]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil lýsa yfir stuðningi við þessa þingsályktunartillögu og í raun er ekki miklu að bæta við hina ágætu greinargerð sem fylgir henni. Fjöldi ferðamanna er þegar slíkur að velta má fyrir sér hvort landnýtingaráætlun sé ekki nauðsynleg svo ekki sé talað um verði fjölgun ferðamanna sú sem áætlað er.

Hálendið er auðlind ferðaþjónustunnar og við verðum að gæta að því að vernda þá auðlind og ganga vel um hana sem og reyndar allar aðrar auðlindir sem við eigum. Framsögumaður, hv. þm. Siv Friðleifsdóttir, nefndi áðan þá peninga sem fara í Hafrannsóknastofnun og aðrar rannsóknarstofnanir en litlum peningum hefur verið varið til að rannsaka þessa auðlind sem verður æ mikilvægari.

Mér fannst skemmtileg mótsögnin sem kom fram í greinargerðinni um víðernið og þá erfiðleika sem geta komið upp við að halda víðerninu og nauðsyn þess að skipuleggja ferðaþjónustuna þannig að hún grafi ekki undan sjálfri sér eða tilvist sinni. Ég held að það sé mjög veigamikið í þessari umræðu.

Þá vil ég taka undir það sem segir í greinargerðinni um nauðsyn þess að svara spurningunni um hver eigi að standa undir kostnaði við ferðaþjónustuna. Ég er sammála því að skattgreiðendur eigi ekki að gera það en ég svo sem efast um að það sé kannski mikil landkynning í því að láta fólk borga sig út úr landinu eins og nefnt var hér áðan. Það er brýnt, held ég, að svara þeirri spurningu og ekki síst á þeim þrengingartímum, sem við lifum á.

Mig langar samt að setja spurningarmerki við eitt í greinargerðinni, það að markmiðið sé að ljúka gerð langtímaáætlunarinnar fyrir árslok 2015. Fimm ár er langur tími og ég velti fyrir mér hvort ekki megi vinna verkið á skemmri tíma. Ég geri alla vega tillögu um að litið verði til þess hvort ekki sé hægt að skipta verkefninu í einhverja þá þætti að not verði af því fyrr en eftir fimm ár.