138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

dómstólar.

100. mál
[15:38]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst af öllu þakka hæstv. dómsmálaráðherra heiðarlega og skilmerkilega framlagningu á málinu og þau svör sem hæstv. ráðherra gaf í þeim andsvörum sem hún fékk við ræðu sinni. Þetta er þannig mál að það hlýtur að kalla á að það sé rætt allítarlega, ekki síst í ljósi þess þegar megintilgangur þess er skoðaður. Í fjárlagafrumvarpi ársins er boðuð mikil herferð í uppstokkun á opinberri þjónustu, stjórnsýslu með sameiningu stofnana og því um líku. Í þeim efnum hefur verið sérstaklega rætt um skattstofur, sýslumenn, dómstóla, svo eitthvað sé nefnt.

Með leyfi forseta eru á bls. 222 á þskj. 1 með fjárlagafrumvarpinu nefnd helstu verkefni sem fyrirhugað er að ráðast í á þessum sviðum og þar undir eru þau þrjú svið sem ég nefndi áðan. Þeim er öllum sammerkt í rauninni að útfærslan á þeim er öll óklár, henni er ekki lokið og við sjáum markmið sett fram um það að sumu af þessu á að vera lokið og tekið til starfa 1. janúar 2010 og í öðrum atriðum höfum við séð dregið úr þeim áformum sem komu fram í frumvarpinu. En allt að einu, þá erum við að ræða um einn tiltekinn þátt í þessu sem lætur ekki mikið yfir sér í fjárlagafrumvarpinu og er í raun ein lína sem hljóðar svo, með leyfi forseta: „Sameining héraðsdómstóla í einn með starfsstöðvar víðs vegar um landið.“ Þegar maður skoðar þetta nánar í frumvarpinu kemur fram við skýringu á fjárlagalið héraðsdómstóla: „Með frumvarpinu er stefnt að því að vinnuálag verði jafnara en nú er, og dómskerfið því betur í stakk búið til þess að taka við síauknum málafjölda. Jafnframt felast í breytingunni margvíslegir hagræðingarmöguleikar, m.a. með fækkun bakvakta, fækkun dómstjóra um sjö, auk þess sem ferðakostnaður lækkar í kjölfar þess að fella dómþinghá niður.“

Með öðrum orðum, allt á bak við þetta mál er fyrst og fremst það eitt að reyna að spara fjármuni fyrir ríkið. Þá fer maður aðeins að glugga í hvernig þetta er gert. Að sjálfsögðu er sá ekki í öfundsverðri stöðu í umræðu dagsins, eins og hér hefur raunar komið fram í umræðum um önnur mál, að mæla gegn sparnaðartillögum í ríkisrekstri. En það skal ekki standa á mér og ég skal standa í báðar fætur í þeim efnum þegar um vanhugsaðar sparnaðartillögur er að ræða. Því þegar við förum að kryfja þetta mál þá komumst við að raun um, ef við yfirvegum þetta og gaumgæfum, að þetta mun væntanlega leiða til meiri útgjalda en sparnaðar og í því ljósi bið ég hv. allsherjarnefnd að skoða málið, fyrir utan — ég ætla að koma að fjármálunum síðar — þá breytingu sem verið er að leggja til í meðferð valds, þ.e. verið er að færa vald af þeim dómstólum sem við erum með hér og þar um landið, þessum átta, í kjölfar breytingar sem gerð var með lögum árið 1992 þegar stofnsettir voru átta héraðsdómstólar og hefur að flestra manna mati sem til þekkja mælst vel fyrir og gengið mjög vel, en þá er verið að draga úr þessu dæmi, færa valdið hingað til Reykjavíkur, hvort sem mönnum líkar það betur eða verr að heyra það og miðstýringin í þessum efnum aukin. Og m.a. er stjórnsýslunni ætlað að ákvarða með hvaða hætti við skipum dómstólum í landinu, það er algjörlega óviðunandi, og hverfa frá því fyrirkomulagi sem nú er í lögum um skipan héraðsdómstólanna.

Þegar maður fer að skoða þetta í því ljósi — ég skal ítreka ef menn fara eitthvað í grafgötur með það þá er ég ekki löglærður maður, met þetta fyrst og fremst út frá þeirri stöðu sem við manni blasir. Ég er ekki í vafa um að allir þeir þingmenn sem nýttu t.d. síðustu viku í kjördæmum sínum, vítt og breitt um landið, hafa orðið varir við mjög mikla andstöðu og hræðslu við þau áform sem hér eru birt. Hvers vegna skyldi það vera? Það skyldi þó ekki vera vegna þess að menn sjá ekki fram á það hvers vegna er verið að gera þetta. Menn skilja ekki tilganginn með þessu annan en þann sem birtist í sinni grófustu mynd, að verið er að taka ákveðnar fjaðrir af landsbyggðinni og færa hingað inn í þessa miðstýringu, sem við sjáum ekki skila nokkrum sköpuðum hlut.

Það kom ágætlega fram í andsvari hjá hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni áðan, að hægt er að ná þeim markmiðum sem þessu frumvarpi er ætlað að ná varðandi kostnaðarhlutdeild með þeim einfalda hætti að gefa þeim sem eru við stjórn úti á vettvangi fyrirmæli um að vinna á annan hátt en þeir gera í dag. Það er alveg rétt að álagið á héraðsdómstólum er mismikið. Hvað er það sem bannar að færa þetta álag á milli héraðsdómara? Er það yfir höfuð eitthvað, annað en að menn koma sér ekki saman um það? Og ef menn koma sér ekki saman um það, hvers vegna í ósköpunum er þá ekki hægt að gera það með þeim hætti að koma til þeirra þeim tilmælum að þeir fari betur með en þeir gera? Það hlýtur að vera hægt að vinna að málinu á annan hátt en þann að leggja niður allt það góða starf sem þarna er úti unnið. Ég er ekki að halda því fram að það megi ekki bæta það með einhverjum hætti, alls ekki. En ég vil ekki sjá að við rústum því kerfi sem þarna er lagt upp með á þeim forsendum sem hér er lagt upp með, að spara einhverjar krónur sem ég sé ekki að skili sér í kassann.

Dettur einhverjum í hug að halda því fram með einhverjum fullum rökum í dag að við ætlum hér við fjárlagagerð fyrir árið 2010 að draga úr fjárveitingum til dómstóla og löggæslu í landinu? Ætlar einhver að halda því fram að við höfum efni á því? Þvert á móti þá held ég að við eigum að leita allra leiða til þess að styrkja hvort tveggja.

Ég vil taka undir þau sjónarmið sem hafa komið fram í dag varðandi það verklag sem maður sér birtast í fjárlagafrumvarpinu, að dómsmálaráðuneytið er til fyrirmyndar í þeim efnum og hefur gengið mun lengra en önnur ráðuneyti. Ég tel ekki efni til þess að svo sé.

En af hverju er ég svona harður á því að frumvarpið nái ekki neinu fram nema þessu? Það kemur fram í kostnaðarumsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins. Með leyfi forseta, þá ætla ég eftir örfá orð að leyfa mér að vitna í niðurlagið. Þar kemur fram að megintilgangur frumvarpsins sé sá að draga úr rekstri héraðsdómstóla. Svo segir í lokin, með leyfi forseta:

„Héraðsdómstólar hafa lengi verið fjárhagslega sameinaðir í fjárlögum og ríkisreikningi og hefur frumvarpið því engin áhrif þar á. Lögfesting frumvarpsins leiðir ekki til beins sparnaðar í rekstri héraðsdómstóla, heldur gerir það auðveldara að hagræða í starfseminni og draga þar með úr kostnaði.“

Ætlum við að gera okkur lífið auðveldara með því að gera það erfiðara fyrir marga sem búa úti á landi og hefur gengið vel með þetta kerfi? Ég hitti fólk sem vinnur við þetta í kjördæmaviku minni fyrir austan og það sá fram á að kostnaður einstakra lögregluembætta, hvað þá einstaklinga sem lenda á þeirri ógæfubraut að þurfa að fara fyrir dómstóla og kostnaður lögregluembættanna við flutning þeirra sem fyrir dómstólana þurfa að mæta muni stóraukast og sömuleiðis kostnaður þeirra sem þetta kerfi þarf að glíma við. Þannig að þegar ég hef horft til frumvarpsins af minni takmörkuðu þekkingu á lögum og metið þetta eingöngu út frá þeim aðstæðum sem fólkinu í landinu eru búnar þá finnst mér gjörsamlega ótækt að vinna málið með þeim hætti sem hér er lagt upp með. Ég er ekki að álasa hæstv. dómsmálaráðherra fyrir verklag hennar. Hér er á ferðinni stefnumörkun sem tilgreind er í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar og ég skil það sem svo að hæstv. ráðherra sé að framfylgja ákvörðunum ríkisstjórnar til að reyna að koma böndum á fjárlagahalla ríkissjóðs.

Eftir yfirlestur og eftir að hafa íhugað þær tillögur sem hér liggja fyrir, hef ég komist að raun um að þetta er ekki sparnaðaraðgerð, heldur vanhugsað verk. Ég skora á hv. allsherjarnefnd að skoða málið í því ljósi og vera menn að meiri að reyna að standa vörð um þó það góða sem ávannst með breytingunni sem gerð var þegar dómsvald og umboðsvald voru aðskilin í héraði árið 1992. Það er allra manna mat sem til þekkja og ég hef fyrir því m.a. orð fyrrverandi dómstjóra við Héraðsdóm Norðurlands eystra, Freys Ófeigssonar, að sú breyting hafi gengið afspyrnuvel. Í umræðunni hér áðan var vitnað til þess að þetta væri ekki ný tilraun til þess að sameina dómstólana, það er alveg hárrétt, tilraun til þess var gerð árið 1989 við mikla andstöðu Dómarafélags Íslands, vegna þess að menn sáu ekki þau tækifæri í þessu sem menn ætla í dag.

Þannig að ég legg áherslu á það að eins og ég skynja þetta mál hér og nú þá nær það ekki tilgangi sínum. Og þegar við horfum fram á málatilbúnað sem kemur fram með þeim hætti að hann nær ekki tilgangi sínum, þá eigum við að vera menn að meiri og reka það mál niður í jörðina og svæfa það. Það er miklu nær að taka umræðuna um þessa faglegu þætti á forsendu nefndarinnar sjálfrar, gera kröfu til þess að skipan dómsmála í landinu verði áskilin og tiltekin í lögum, en þetta atriði sem lýtur beinlínis að megintilgangi frumvarpsins varðandi sparnað, er alveg augljóst í öllum atriðum að mun ekki ganga eftir.

Vel kann að vera að sú orðræða sem ég rek hér verði töluð og tiltekin með þeim hætti að hér sé á ferðinni dæmigerður landsbyggðarbarlómur. Kann vel að vera. Ég skal keikur standa vörð um það sem þar úti er og mér sýnist bara einfaldlega ekkert veita af, sama hvar í flokki menn standa. Mér sýnist heldur ekki veita af þegar málin eru lögð upp með þeim forsendum sem hér er gert að dregið sé úr möguleikum fyrir ungt menntað fólk til að setjast að í sinni heimabyggð eða skjóta sér nýjum rótum annars staðar en það ólst upp á forsendum sem standast ekki, þ.e. að ríkissjóður þurfi að hagræða í starfsemi sinni og þess vegna geti ekki lengur verið grundvöllur undir starfrækslu allra þessara héraðsdómstóla. Það er bara rangt að vinna með þeim hætti, sama hvort ég bý á Akureyri eða því mæta plássi Dalvík eða á höfuðborgarsvæðinu. Menn eiga að sjá þetta. Þetta er alveg eðli málsins samkvæmt.

Það kann vel að vera að í því umróti öllu sem er í tengslum við fjárlagagerðina, skiljanlega, vegna þess að vandinn sem við er að glíma þar er gríðarlega mikill, að þá geri menn mistök, setji fram áætlanir í góðri trú, en þegar betur er að gáð þá eigum við og sjáum að þetta er ekki það sem til er ætlast.

Ég hefði ekkert á móti því að stríða hér ágætum félögum mínum úr stjórnarandstöðunni háttvirtum sem hafa barist með oddi og egg eins og hv. þm. Atli félagi (Gripið fram í.) — félagi minn í stjórnarandstöðu, já, hann er það — Atli Gíslason, já, já, háttvirtur, fyrirgefðu, ég gleymdi föðurnafninu. Það kann vel að vera að við þurfum að horfa upp á það hér í þeim sparnaðartillögum sem fyrir liggja að miðstýringin verði aukin svo yfirgengilegt sé og mér sýnist það vera á hraðri leið. Við sjáum það t.d. í meðferð Icesave-málsins svokallaða að verið er að framvísa hluta dómsvaldsins til EFTA-dómstólsins, annarra dómstóla. Ég vil ekki sjá þá þróun hér í samfélagi okkar á meðan við ráðum okkar málum sjálf. Ég treysti á allsherjarnefnd háttvirta að skoða málið í því ljósi hver megintilgangur þess á að vera, en það er fullkomlega óraunhæft að það náist fram.