138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

dómstólar.

100. mál
[16:30]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel að þetta sé einhvers konar andsvar af hálfu hv. þingmanns við umsögn fjármálaráðuneytisins. Fjármálaráðuneytið segir, með leyfi virðulegs forseta:

„Í athugasemdum við frumvarpið kemur fram að megintilgangur þess sé að draga úr kostnaði við rekstur héraðsdómstóla.“

Skýrara getur þetta ekki verið. Auðvitað er það þannig að þetta eru þau rök sem fyrst og fremst eru flutt. Það er að hægt sé að hagræða sem þýðir auðvitað að spara. Hagræðing hefur það í för með sér að draga úr kostnaði ekki rétt og það er hinn yfirlýsti tilgangur frumvarpsins.

Ég taldi mig hafa sýnt fram á það að þetta frumvarp væri afar illa rökstutt þegar kæmi að því að fjalla um í hverju þessi hagræðing er falin. Ég sé það ekki í þessum texta, ég sé það ekki í athugasemdunum, ég get ekki lesið það út úr frumvarpstextanum sjálfum. Það kemur þvert á móti fram af hálfu fjármálaráðuneytisins að það verði enginn fjárhagslegur sparnaður. Það verður hins vegar hægt að manipúlera eitthvað með starfsmenn dómstólanna með því að setja það í eina púllíu. Ég hef hins vegar bent á að til séu aðrar leiðir sem séu miklu skilvirkari í þessu sambandi og jafnvel þó að hv. þingmaður hafi á réttu að standa, að hér væri um að ræða sparnað eða hagræðingu, þá vega mjög margir aðrir þættir upp á móti því og m.a. það réttarfarslega öryggi sem í því felst að hafa þessa dómstóla starfandi á landsbyggðinni.