138. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2009.

undirbúningur aðildarviðræðna við Evrópusambandið.

85. mál
[15:10]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Hv. þingmaður skiptir í sumum málum svo ört um skoðun að maður á erfitt með að fylgjast með. Hér í sumar hélt hann margar magnþrungnar ræður sem allar miðuðu að því að það væri allt of skjótt af stað farið og menn ættu heldur að flýta sér hægt. Núna er erfitt að skilja mál hans öðruvísi en svo að honum finnist sem utanríkisráðherra sé allt of svifaseinn í þessum málum.

Hugsanlega hefur hann verið að lesa Morgunblaðið og fær sína vitneskju þaðan eða sína eigin upplýsingu á þessu sviði. Hv. þingmaður sagði í fyrri ræðu sinni, og ég komst ekki til að svara, að ég hefði margsinnis lýst því yfir að Ísland mundi fara á methraða inn í Evrópusambandið. Þetta er allt saman uppspuni úr leiðarahöfundum Morgunblaðsins sem hv. þingmaður hefur greinilega miklu nánara samband við en utanríkisráðherra eins og sakir standa.

Ég hef aldrei haldið slíku fram. Ég hef hins vegar sagt, sem rétt er, að Ísland er komið lengra áleiðis í samrunaferli en mörg önnur ríki sem hafa hug á að fara þar inn eða ríki sem hafa farið inn á umliðnum árum þegar þau hófu sína ferð. Ástæðan er sú að við höfum í 15 ár tekið þátt í EES og við höfum farið í gegnum Schengen. Mat framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins á því hversu langt við erum komin er að við séum búin að taka upp 75% af regluverki sambandsins. Ég tel að það sé að vísu ekki svo mikið.

Ég hef þvert á móti sagt alveg skýrt, og þvert á það sem t.d. stækkunarstjóri Evrópusambandsins hefur sagt, að ég telji að samningaviðræðurnar verði ekki eins hraðar og margir virðast álíta. Ég tel að þær verði erfiðar og ég tel að þær muni að sjálfsögðu markast mjög af því með hvaða hætti okkur tekst að leiða til lykta deilumál innan landbúnaðar og sjávarútvegs sérstaklega. Þar stöndum við allir sem þjóðhollir Íslendingar og þar höfum við þetta leiðarhnoða sem er meirihlutaálitið. Og af því að hv. þingmaður beindi líka til mín spurningum um tímasetningar á mótun samningsafstöðu segi ég: Ég fer nákvæmlega eftir ferlinu sem þar er. Það verður að gefa hv. þingmanni það (Forseti hringir.) að hann var að vísu á móti því ferli í sumar.