138. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2009.

eftirlit og björgunarstörf á Norður-Atlantshafi.

52. mál
[18:36]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Hér er hreyft þörfu máli. Eins og fram kom í máli hv. fyrirspyrjanda, Sigurðar Inga Jóhannssonar, hefur Vestnorræna ráðið látið þetta mál til sín taka og gert samþykktir um aukið samstarf þessara vestnorðlægu landa í öryggis- og björgunarmálum í Norðurhöfum. Alþingi Íslendinga hefur líka samþykkt þingsályktun um þetta mál, hún var samþykkt í maí 2008, en þetta samstarf er reyndar nú þegar hafið og hafnar samæfingar eftir því sem næst verður komist. En það er líka vert í þessu samhengi að árétta að Vestnorræna ráðið beitir sér líka mjög fyrir samstarfi björgunarsveita og sjálfboðaliðasveita varðandi björgunar- og öryggismál í Norður-Atlantshafi og m.a. fyrir stofnun þeirra eins og í tilviki Grænlendinga. (Forseti hringir.) Það er líka mál sem þarft er að hafa í huga í þessu samhengi og mikilsvert, að ég tel, að fylgja þessum áformum eftir.