138. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2009.

afskriftir skulda og samkeppnisstaða fyrirtækja.

[11:27]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Frú forseti. Ég þakka frummælanda fyrir að vekja máls á þessari mjög svo brýnu umræðu og ekki síður tek ég undir orð síðasta ræðumanns um mikilvægi þess. Ég tel það mjög skynsamlega nálgun að fyrrum eigendur fyrirtækisins geti með einhverju móti tekið þátt í þeirri uppbyggingu sem fram undan er.

Það er öllum ljóst að atvinnulíf okkar þarf afskriftir, til að við getum hér búið við öflugt atvinnulíf þurfum við að fara í verulegar afskriftir. Við höfum flest, ef ekki öll, talað um að þetta ferli þurfi að vera gagnsætt, opið, sanngjarnt og samræmt og að því leyti til höfum við stofnað verklagsreglur banka, búið til eignaumsýslu og Bankasýslu. Ég held að aðhald okkar hafi verið nokkurt á undanförnum mánuðum og kannski heft að einhverju leyti ákvarðanatöku í bönkunum.

Mig langar líka að víkja tali mínu að þeim nýju lögum sem samþykkt voru á Alþingi fyrir nokkrum dögum. Ég held að okkur hafi tekist að samræma þær reglur sem gilda um afskriftir, hvaða leiðir á að fara hvað varðar heimilin í fyrsta lagi og ekki síður hvað varðar fyrirtækin. Við komum þannig í veg fyrir gjaldþrot lífvænlegra fyrirtækja eða heimila, við lögum skuldastöðuna að því sem fyrirtæki eða heimili geta staðið undir en samt sem áður eru þau skuldsett og geta því alveg, eins og ráðherra kom inn á áðan, ekki skekkt samkeppnisstöðu á markaði.

Ég fagna líka nefndinni sem verður sett á stofn og á að hafa eftirlit með verklagi og útfærslum á verklagsreglum bankanna. Um leið brýni ég alþingismenn áfram til að halda á lofti aðhaldsverkefni sínu. Við stöndum vaktina núna, það er ekki síður mikilvægt að við sinnum skyldum okkar áfram sem hingað til.