138. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2009.

breytingar á skattkerfinu.

[13:38]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Brjálæðið í þessum hugmyndum liggur í því að það er ekki hægt að stórauka álögur á atvinnustarfsemi og einstaklinga þegar við erum í þessari kreppu, þegar við erum í þessum gríðarlega mikla samdrætti, þegar við höfum svona mikla þörf fyrir að fá tekjustofnana til að skila ríkinu að nýju tekjum í þvílíku brjálæði og auðvitað líka í því að ríkisstjórnin hefur verið gjörsamlega vanfær um að draga hingað heim nýja fjárfestingu sem liggur í áhugasömum aðilum sem vilja koma hingað og fjárfesta í orkufrekum iðnaði. Það eru lagðir til meiri skattar en prógrammið hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum gerir ráð fyrir.

Hvað er að gerast á þessu ári? Ríkið skilar verri afkomu en lagt var upp með. Það er um það bil 30 milljarða verri afkoma á ríkissjóði en að var stefnt á þessu ári þannig að ríkisstjórnin klúðrar líka málum hvað varðar það að sýna aðhald og sparnað í sínum eigin rekstri. Hvað sagði ríkisendurskoðandi fyrir skemmstu? Jú, nýju skattarnir frá því í sumar skila ekki einu sinni tekjunum sem að var stefnt. (Forseti hringir.) Þetta ættu menn að láta sér verða að lexíu. Það er ekki hægt að auka tekjur ríkisins endalaust með því að hækka skatta.