138. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2009.

Íslandsstofa.

158. mál
[17:04]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ef hv. þingmanni mislíkaði ræða mín má nefna að hún var í svipuðum stíl og ræðan sem hv. þingmaður flutti áðan. Ef henni finnst hún ekki málefnaleg er hún bara bergmál af því sem kom fram í ræðu hv. þingmanns áðan. Ég verð að viðurkenna að mér fannst hún óvanalega neikvæð og óvanalega fordómafull því að yfirleitt tekur þessi þingmaður með málefnalegum hætti á málum. Auðvitað hefur hv. þingmaður fullt frelsi til að vera á móti sínum eigin flokki eins og hún er á móti stefnu míns flokks, það er allt í lagi, hv. þingmaður, og það er gott að menn séu sjálfstæðir. En ég er einvörðungu að segja að þær hugmyndir sem hérna koma fram spruttu því miður ekki upp í mínu höfði. Það gerist því miður allt of sjaldan að þar komi nýjar hugmyndir, en þó gerist það af og til. Ég er hins vegar allra manna bestur í því að nýta annarra manna hugmyndir. Og þessum hugmyndum var a.m.k. ungað út á skrifstofu fyrrverandi forsætisráðherra með mínu samþykki, sannarlega.

Þessar hugmyndir hafa verið ræddar af atvinnulífinu og þær komu í reynd fyrst fram hjá atvinnulífinu. Eftir því sem ég best veit var haft prýðilegt samráð við þá geira atvinnulífsins sem þetta mál varðar. Eins og hv. þingmaður getur lesið af því að hún kann þetta frumvarp greinilega miklu betur en ég taldi að mætti álykta af ræðu hennar er atvinnulífið með meiri hluta í stjórninni samkvæmt þessu frumvarpi. Það er ekki hægt að tala um að þetta sé einhver miðstýringarárátta af hálfu stjórnvaldsins. Það væri þá miklu frekar að það væri miðstýringarárátta af hálfu atvinnulífsins. En viljum við ekki einmitt að atvinnulífið sem á svo mikið undir þessu vegna útflutningsviðskipta ráði töluvert miklu um það hvernig þessum málum verður komið fyrir?

Varðandi síðan þá tekjustofna sem koma fram í frumvarpinu veit ég ekki hversu gamlir þeir eru en sumir þeirra áttu a.m.k. uppruna sinn hjá (Forseti hringir.) þeirri ríkisstjórn sem hv. þingmaður studdi á sínum tíma, en ég ekki.