138. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2009.

hagsmunir Íslands í loftslagsmálum.

9. mál
[19:47]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ef maður væri viðkvæmari en maður er þá mundi maður kannski hugsa sem svo: Hélt fólk eitthvað annað en við mundum gæta ýtrustu hagsmuna Íslands? Datt einhverjum eitthvað annað í hug? Hélt einhver að við ætluðum kannski að gæta hagsmuna Breta og Hollendinga í loftslagsmálum, svo ég vitni í fyrri ræður undir öðrum liðum?

Ég vil árétta það við hv. þm. Sigurð Inga Jóhannsson að þegar þessi kerfisbreyting hefur gengið yfir, sem við þurfum að undirgangast einfaldlega vegna aðildar okkar að Evrópska efnahagssvæðinu, er í raun og veru um einn pott að ræða og þar með er sérstaðan úti, eðli málsins samkvæmt. Þá erum við komin með tvö kerfi sem tala ekki saman. Það er það sem er í raun viðfangsefni, útfærsluatriði, sem samninganefndin verður að fá botn í. Ég vona að það náist þótt það verði þá ekki nema í lagalega bindandi gjörningi en ekki í fullnaðarniðurstöðu, eins og menn höfðu væntingar um lengst af.