138. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2009.

sveitarstjórnarlög.

15. mál
[20:09]
Horfa

Flm. (Þór Saari) (Hr):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á sveitarstjórnarlögum. Um er að ræða breytingu á 12. gr. laga nr. 45/1998 og fjallar greinin um fjölda fulltrúa í sveitarstjórn. Flytjendur þessa máls eru þingmenn Hreyfingarinnar auk hv. þm. Sigurðar Inga Jóhannssonar úr Framsóknarflokki.

Sveitarstjórnir og það lýðræðisfyrirkomulag sem þær búa við hefur ekki verið mikið til umræðu hér á landi og hefur hingað til ekki þótt ástæða til að velta mikið vöngum yfir því með hvaða hætti lýðræði á sveitarstjórnarstiginu fer fram. Kosið er til sveitarstjórna á fjögurra ára fresti, oftar en ekki listakosningu en þó tíðkast enn, a.m.k. að einhverju leyti, að einstaklingar séu kosnir. Fjöldi sveitarstjórnarmanna og aðkoma almennings að málefnum sveitarfélaga sinna hefur heldur ekki verið mikið til umræðu. Fámennið víða á eflaust sinn þátt í því en aðgengi íbúa að kjörnum fulltrúum í sveitarstjórnum er án efa mjög víða ágætt.

Undanfarin ár hefur þó orðið eðlisbreyting á þessum málum þar sem verkefni sveitarfélaga hafa stóraukist, sérstaklega með yfirtöku þeirra á grunnskólastiginu og miðað við umræðuna má gera ráð fyrir að sveitarstjórnarstigið muni taka að sér enn fleiri verkefni á næstu árum. Í því efni hefur verið rætt um heilsugæsluna, málefni fatlaðra og jafnvel framhaldsskóla. Eins hefur töluvert verið um sameiningar sveitarfélaga undanfarin ár og uppi eru hugmyndir um enn stórfelldari sameiningar, jafnvel með lögum, en hingað til hafa slíkar sameiningar verið mál íbúanna á staðnum. Eins hafa einstök sveitarfélög stækkað gríðarlega undanfarin ár hvað íbúatölu varðar án þess að fjölgun hafi orðið á fulltrúum almennings í þeim sveitarstjórnum. Þetta stafar af þeirri séríslensku reglu, takið eftir því, að kveðið er skýrt á um hámarksfjölda sveitarstjórnarmanna í þeirri grein núverandi sveitarstjórnarlaga sem fjallar um fjölda fulltrúa í sveitarstjórn. Þetta hefur m.a. leitt til þess að borgarfulltrúum í Reykjavík hefur ekki fjölgað um einn einasta frá árinu 1908, í 101 ár. Mér telst til að þetta sé einsdæmi í Evrópu því að yfirleitt er rætt um að vera þurfi lágmarksfjöldi sveitarstjórnarmanna miðað við ákveðinn íbúafjölda en ekki hámarksfjöldi. Því er mælst til þess að eftirfarandi breyting verði gerð á 12. gr. sveitarstjórnarlaga og hún hljóði svo, með leyfi forseta:

„a. 1. mgr. orðast svo:

Í sveitarstjórn skal fjöldi sveitarstjórnarmanna standa á oddatölu og vera að lágmarki sá sem hér greinir:

a. þar sem íbúar eru innan við 1.000: 7 aðalmenn,

b. þar sem íbúar eru 1.000–4.999: 11 aðalmenn,

c. þar sem íbúar eru 5.000–24.999: 17 aðalmenn,

d. þar sem íbúar eru 25.000–49.999: 31 aðalmaður,

e. þar sem íbúar eru 50.000–99.999: 47 aðalmenn,

f. þar sem íbúar eru 100.000–199.999: 61 aðalmaður,

g. þar sem íbúar eru 200.000–399.999: 71 aðalmaður.

b. Í stað orðanna „í átta ár“ í 2. mgr. kemur: í tvö ár.

2. gr.

Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Í greinargerð frumvarpsins segir svo, með leyfi forseta:

„Markmið frumvarps þessa er að viðmið um fjölda sveitarstjórnarfulltrúa á Íslandi verði færð til samræmis við það sem þekkist í nágrannalöndunum. Ákvæði 12. gr. sveitarstjórnarlaga um hámarksfjölda kjörinna fulltrúa í sveitarstjórnum eiga sér hvergi hliðstæðu í Evrópu að því best er vitað. Til að mynda má benda á ákvæði í sænskum sveitarstjórnarlögum þar sem kveðið er á um lágmarksfjölda kjörinna fulltrúa í bæjar- og borgarstjórnum (sjá fylgiskjal). Ákvæði um lágmarksfjölda eru eins eða svipuð annars staðar á Norðurlöndum og í Evrópu (sjá vef Evrópuráðsins: www.coe.int).

Í janúar 1908 var bæjarfulltrúum í Reykjavík fjölgað í 15. Hundrað og einu ári síðar eru kjörnir fulltrúar í borgarstjórn Reykjavíkur enn 15 að tölu þótt fjöldi íbúa hafi fimmtánfaldast á heilli öld. Frá 1908 hefur landsframleiðsla á hvern íbúa einnig fimmtánfaldast og því má fullyrða að efnahagsleg umsvif í Reykjavík hafi a.m.k. 225-faldast á einni öld.

Frambjóðandi til borgarstjórnar í Reykjavík nú til dags þarf að fá um 7% atkvæða til að ná kjöri og eru engin fordæmi um jafnfáa kjörna fulltrúa og jafnháan lýðræðisþröskuld í ámóta fjölmennu sveitarfélagi í nágrannalöndum okkar. Samkvæmt lögum annars staðar á Norðurlöndum, í Evrópu og víðar ættu borgarfulltrúar í Reykjavík því að vera 43–61 hið minnsta.

Hér er um að ræða lýðræðisskerðingu sem stríðir gegn anda Evrópusáttmálans, mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem og Ríó-sáttmálans um Staðardagskrá 21 sem er heildaráætlun ríkja Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun samfélaga fram á 21. öldina í samráði við íbúana á hverjum stað og með þátttöku atvinnulífs og félagasamtaka. Þessi skerðing er alvarlegt mannréttindabrot. Hún er andstæð viðhorfum og venjum annars staðar á Norðurlöndum, í Evrópu og víðar þar sem lýðræði er í hávegum haft, þar sem meginmarkmiðið er ekki að torvelda heldur auðvelda þátttöku borgaranna í ákvarðanatöku um eigin mál og mótun samfélagsins til framtíðar.

Nærri útilokað er fyrir einstaklinga og samtök utan hefðbundinna stjórnmálasamtaka að komast til áhrifa í sveitarstjórnum og ríkir því fákeppni í sveitarstjórnarmálum og fáveldi í stjórnunarháttum sveitarstjórna (oligarkí, einhvers staðar á milli einræðis og lýðræðis).

Í borgarstjórn Reykjavíkur og öðrum fámennum íslenskum sveitarstjórnum er fáveldið auk þess undirstrikað enn frekar með ranghugmyndinni um þörf á „starfhæfum meiri hluta“, sem veldur því að 8–9 borgarfulltrúar hlaða á sig völdum og vegtyllum á meðan minni hlutinn situr hjá verklítill.

Fjöldi aðalmanna í þessari tillögu er fenginn með því að miða við helmingsmun á ákvæðum í sænskum og norskum sveitarstjórnarlögum,“ samanber myndina á bls. 2 í frumvarpinu.

Frekari samanburður við nágrannalöndin leiðir í ljós íbúafjölda og meðaltal fjölda sveitarstjórnarmanna annars staðar á Norðurlöndunum eins og sjá má í töflunni á bls. 2. Þá eru að meðaltali 28,2 sveitarstjórnarmenn í sveitarstjórnum í Finnlandi, 25,7 í sveitarstjórnum í Danmörku, 30 í sveitarstjórnum í Noregi, 44 sveitarstjórnarmenn að meðaltali í sveitarstjórnum í Svíþjóð en einungis 6,6 sveitarstjórnarmenn að meðaltali í sveitarstjórnum á Íslandi miðað við íbúafjölda. Taflan á bls. 3 leiðir svo enn frekar í ljós hvernig staðan er í nokkrum einstökum sveitarfélögum á Norðurlöndunum hvað varðar fjölda sveitarstjórnarmanna. Eins og segir í frumvarpinu, með leyfi forseta:

„Greinilegt er að miðað við nágrannalöndin er mikill lýðræðishalli hér á landi hvað varðar þátttöku og möguleika almennings til áhrifa í sveitarstjórnum og slíkar fámennisstjórnir sem hér hafa tíðkast eru einsdæmi. Vissulega má gefa sér að þetta fyrirkomulag sé einfaldlega barn síns tíma en með gjörbreyttu og stórlega auknu hlutverki sveitarstjórna sem stjórnsýslustigs verður að gera þá kröfu að almenningur og smærri samtök fái að hafa meiri áhrif á framgang mála.

Með fjölgun sveitarstjórnarmanna má einnig gera ráð fyrir að nefndir og ráð sveitarstjórna yrðu skipuð kjörnum fulltrúum en ekki varamönnum eða öðrum liðsmönnum þeirra flokka sem sæti eiga í sveitarstjórninni. Slíkt mundi gera allt ferlið við ákvarðanatöku markvissara og ábyrgð kjörinna fulltrúa yrði einnig skýrari. Eins má gera ráð fyrir að krafa um stærri og öflugri sveitarstjórnir mundi enn frekar ýta undir sjálfviljuga sameiningu sveitarfélaga sem nú eru 77 talsins þrátt fyrir umtalsverða fækkun á liðnum árum. Sveitarfélögin hafa öll sömu stöðu og sömu skyldum að gegna samkvæmt lögum þrátt fyrir að vera ólík og misjöfn að landfræðilegri stærð og íbúafjölda. Hlutverk sveitarfélaga hefur tekið breytingum síðustu ár og verkefnin aukist umtalsvert og þörfin fyrir öflugar sveitarstjórnir og aðkomu fleiri að þeim hefur því farið vaxandi.“

Herra forseti. Þessi breyting er mikilvæg frá því sjónarmiði að lýðræði sé að miklu leyti valddreifing og þegar það er haft í huga liggur beint við að fjölga í sveitarstjórnum þegar þau sameinast öðrum til að gefa íbúum hinna mismunandi sameinuðu eininga færi á að hafa bein áhrif á starfsemi sveitarfélagsins. Þetta er mikilvægt, ekki síst þegar höfð er í huga þörfin á sameiningu sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Ein helsta fyrirstaðan við sameiningar þar er að Reykjavík mundi ná yfirburðum en með fjölgun borgarfulltrúa yrði pláss fyrir alla. Þannig gætu einnig félagasamtök og grasrótarhópar tekið beinan þátt í störfum sveitarfélaganna og hugtakið þátttökulýðræði yrði fyrir alvöru virkt. Breytingartillögur þessar snúa því fyrst og fremst um valddreifingu og aukið lýðræði, möguleika almennings til að hafa meiri áhrif á umhverfi sitt og að byggja sér líf og umhverfi sem hann er sáttari við. Réttmætara og eðlilegra getur það ekki orðið.

Vonandi fær frumvarpið góðar viðtökur í allsherjarnefnd, en þangað mun það fara, og meðal allra annarra þingmanna sem skilja mikilvægi þess þegar þeir hafa kynnt sér málið.