138. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2009.

Náttúruminjasafn Íslands.

6. mál
[14:03]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég vil beina spurningum til hæstv. menntamálaráðherra vegna Náttúruminjasafns Íslands. Nú er það þannig að við búum við safnalög og þar kemur fram að við erum með þrjú höfuðsöfn í landinu. Hvaða söfn eru það? Það er Þjóðminjasafn Íslands, það er Listasafn Íslands og það er Náttúruminjasafn Íslands. Þetta eru okkar höfuðsöfn. Það kemur líka fram í lögunum að safn er samkvæmt lögum þessum stofnun opin almenningi sem hefur það hlutverk að safna heimildum um manninn, sögu hans, umhverfi og náttúru landsins, standa vörð um þær, rannsaka, miðla upplýsingum og hafa þær til sýnis svo að þær megi nýtast til rannsóknar, fræðslu og skemmtunar. Söfn hafa því mjög miklu hlutverki að gegna.

Nú er það hins vegar svo að Náttúruminjasafn Íslands, höfuðsafn okkar á sviði náttúrufræða, hefur verið á hrakhólum í yfir 100 ár. Ég vil minna á að Hið íslenska náttúrufræðifélag var stofnað í Reykjavík 16. júlí árið 1889 og í lögum þess var minnst á Náttúrugripasafn Íslands. Safnið fór af stað á sínum tíma, það flutti á milli húsa og nú er svo komið að miðað við þær upplýsingar sem ég hef þá er það í kössum og er búið að vera í kössum um þó nokkurt skeið.

Það er mjög ólíklegt að við munum byggja nýtt hús yfir þetta höfuðsafn okkar miðað við ástandið í samfélaginu í dag og því er mjög spennandi að athuga hvort við getum komið því fyrir í húsnæði sem fyrir er, húsnæði sem nú þegar er til staðar og þá beini ég augum til Þjóðmenningarhússins. Safnið á m.a. að þjóna skólanemendum og það á að sjálfsögðu líka að sinna ferðamönnum og öðrum sem hafa áhuga á að skoða það. Í mínum huga er óhjákvæmilegt að höfuðsafnið verði á höfuðborgarsvæðinu. Hér eru um 70% þjóðarinnar, hér eru 70% barna í skóla. Mér finnst mjög eðlilegt að við skoðum húsnæði á höfuðborgarsvæðinu en síðan væri hægt að koma sýningu fyrir á landsbyggðinni, láta það jafnvel flakka á milli o.s.frv. En vegna þessa ástands vil ég gjarnan spyrja hvort gripir Náttúruminjasafns Íslands séu aðgengilegir og til sýnis eins og lögin kveða á um, hvort áætlanir séu um að byggja nýtt hús fyrir safnið og hvort til greina komi að finna safninu samastað í húsnæði sem fyrir er, svo sem í Þjóðmenningarhúsinu þar sem það gæti verið mjög glæsilegt í alla staði.