138. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2009.

framlög til menningarmála.

134. mál
[15:29]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu og þakka hv. fyrirspyrjanda Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur fyrir fyrirspurn hennar.

Mig langar að beina til hæstv. menntamálaráðherra annars vegar því sem reyndar hefur komið fram að mjög hart var gengið fram gegn Kvikmyndamiðstöð Íslands, þ.e. hún fékk 30,6% niðurskurð þegar aðrir fengu mun minna. Það hefur reyndar komið fram í fjölmiðlum að hæstv. ráðherra hyggist bregðast við þessu. Mun það þá gerast í ráðuneytinu eða verður það í höndum fjárlaganefndar að koma að því?

Eins vil ég lýsa yfir vonbrigðum með hæstv. menntamálaráðherra, sem ég er nú yfirleitt mjög ánægður með, og hvað hún skar ofboðslega mikið niður í safnliðunum. Það er mjög erfitt fyrir okkur í fjárlaganefndinni núna að vinna úr því verki.

Einnig langar mig að beina til hæstv. menntamálaráðherra, af því menningarsamningarnir t.d. gagnvart Vesturlandi eru mjög lágir miðað við marga aðra, hvort hún hyggist gera eitthvað í því.

Ég vil enda þetta á því að beina til hennar fyrirspurn um mál sem mér er hugleikið: Mun bygging tónlistarhússins ekki drepa niður allt menningarstarf í landinu?