138. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2009.

staðgöngumæðrun.

63. mál
[18:32]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður Ragnheiður Elín Árnadóttir beinir til mín fyrirspurn um hvenær vænta megi niðurstöðu vinnuhóps heilbrigðisráðuneytis um siðfræðileg, lögfræðileg og læknisfræðileg álitaefni varðandi staðgöngumæðrun. Eins og þegar hefur komið fram var sá vinnuhópur sem hér er um að ræða skipaður í upphafi þessa árs af þáverandi heilbrigðisráðherra, hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni. Frá upphafi hefur verið lögð mikil áhersla á það, eins og reyndar kom fram í máli hv. þingmanns, að nauðsynlegt væri að málið yrði vandlega undirbúið en einnig að fram fari almenn umræða um málið áður en ákvörðun væri tekin. Þennan vinnuhóp skipa þrír einstaklingar. Það er sviðsstjóri í heilbrigðisráðuneytinu, dósent við Háskóla Íslands og aðstoðarlandlæknir. Vinnuhópurinn hefur verið að kynna sér stöðu þessara mála í öðrum löndum, einkum í Evrópu, og hefur lagt töluverða vinnu í að greina helstu álitaefni varðandi staðgöngumæðrun sem eins og fram hefur komið eru bæði á sviði siðfræði, lögfræði og læknisfræði.

Staðan í flestum Evrópuríkjum, þar á meðal alls staðar á Norðurlöndunum, er sú að staðgöngumæðrun er ekki leyfð. Í Bretlandi er hún leyfð en lagt þó bann við því að staðgöngumæðrun fari fram á viðskiptalegum grundvelli, þ.e. að borgað sé fyrir staðgöngumæðrun. Hópurinn hefur fengið á sinn fund ýmsa aðila, sérfræðinga á sviði tæknifrjóvgana, fulltrúa frá Tilveru, sem eru samtök um ófrjósemi, fengið kvensjúkdómalækna og félagsráðgjafa. Skoðanir þeirra aðila sem hafa komið á fund nefndarinnar á því hvort leyfa skuli staðgöngumæðrun eru mjög skiptar. En þó eru allir sammála nauðsyn þess að skoða vandlega hagsmuni þeirra sem málið snertir, það er ekki síst barnanna sem um er að ræða, væntanlegra foreldra og einnig staðgöngumæðranna. Allir þessir aðilar eru líka sammála um að það þurfi nauðsynlega að fara fram almenn umræða í þjóðfélaginu um þessi flóknu mál og siðfræðispurningar sem því tengjast.

Vinnuhópurinn tjáir mér að þau muni skila áfangaskýrslu nú í byrjun desember. Ég vænti þess að hún geti orðið grundvöllur upplýstrar almennrar umræðu um staðgöngumæðrun sem ég tel að sé forsenda fyrir ákvörðun um þessi efni.

Ég vil geta þess að í kjölfar þess að áfangaskýrslu nefndarinnar verði lokið er áformað að halda opinn fund, eða málstofu, um staðgöngumæðrun og má búast við að það verði fljótlega á næsta ári, jafnvel í febrúar.

Ég vil, frú forseti, taka fram að á þessu ári hafa borist fjórar fyrirspurnir til ráðuneytisins frá fólki sem hefur hug á því að eignast barn með staðgöngumæðrun og auk þess ein fyrirspurn frá konu sem vill ganga með barn fyrir systur sína. Þá hafa ein íslensk hjón sem hafa eignast börn með staðgöngumæðrun erlendis óskað eftir þátttöku í sjúkrakostnaði vegna þessa en niðurstaða liggur ekki fyrir.

Ég vil taka undir það sem hv. þingmaður, Ragnheiður Elín Árnadóttir, sagði áðan, að það þarf að horfa sérstaklega til þeirra sem búa við ófrjósemi af völdum krabbameinsmeðferðar á unga aldri. Eins og hv. þingmaður sagði fer sá hópur fólks vaxandi einfaldlega vegna þess að krabbameinslækningarnar eru orðnar það góðar að fleiri læknast, eins og hv. þingmaður sagði, en konurnar búa við ófrjósemi.

Ég vil ítreka það sem ég sagði að það stendur ekki á því að sleppa málinu út úr ráðuneytinu, það þarf að sleppa málinu út í almenna umræðu þannig að við getum tekið upplýsta ákvörðun sem er í takt við vilja þjóðarinnar. Það þarf að ná ákveðinni sátt um þetta. Ég tel að vinna þessarar nefndar muni skila góðum grunni til þess að svo megi verða.