138. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2009.

staðgöngumæðrun.

63. mál
[18:38]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég er ánægður að heyra að starfshópurinn sem ég setti á laggirnar í byrjun árs muni skila nú í byrjun desember. Eins og kom fram hjá hæstv. ráðherra og svo sem fyrirrennara hans líka við fyrirspurn frá hv. þm. Ragnheiði Elínu Árnadóttur var farið í þessa vegferð til þess að hér væri grunnur að upplýstri umræðu. Að mínu áliti komumst við ekkert hjá því að ræða mál eins og þessi. Ég held að góður grunnur í þeirri umræðu sé að fá sérfræðinga til þess að fara yfir málin og koma með góða úttekt og skýrslu sem geti þá orðið grunnur að þeirri umræðu. Við megum ekki vera hrædd við hana.

Svo vil ég þakka hv. þm. Ragnheiði Elínu Árnadóttur, sem er mikil áhugamanneskja um þessi mál og var hvatamaður að því að þetta var gert á sínum tíma, fyrir fyrirspurn hennar.