138. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2009.

störf þingsins.

[10:42]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Síðustu mánuðina hefur átt sér stað mjög frjó umræða um lýðræðismálin og núna um helgina fer fram þjóðfundur í Laugardalshöllinni þar sem þau mál verða sjálfsagt ofarlega á blaði í ýmsum starfshópum. Eitt mál er mjög brýnt að komi fram á þessu kjörtímabili, frumvarp til laga um að landið verði allt gert að einu kjördæmi. Þannig verði öll atkvæði jafnþung og það mannréttindamál nái loksins fram að ganga að allir landsmenn hafi jafngild atkvæði. Um leið eyðir þetta að sjálfsögðu óeðlilegu kjördæmapoti og þeim fyrirgreiðslum sem því fylgja en þetta kallar á breytingar á stjórnarskrá. Þess vegna þarf málið að ganga fram á þessu þingi. Þetta var fyrst flutt árið 1927 af Héðni Valdimarssyni, síðan rúmum 70 árum síðar af Guðmundi Árna Stefánssyni og liggur núna meira og minna tilbúið til flutnings ef vilji er til á þessu þingi. Það skiptir miklu að hreyfa þessu máli sem er eitt stærsta og brýnasta lýðræðismálið af þeim öllum, að landið verði allt eitt kjördæmi og öll atkvæði vegi jafnþungt. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

Þess vegna spyr ég hv. þingflokksformann Framsóknarflokksins um viðhorf þeirra í þessu máli af því að ég veit að innan raða hinna flokkanna er mikill vilji til að þetta mál nái fram. Einnig vildi ég beina til hans spurningu um persónukjör sem er hitt stóra lýðræðismálið sem stuðlar að auknu beinu lýðræði og gjörbreytingu á vali á framboðslistum til hins betra. Sjálfur tel ég að ganga eigi enn þá lengra en framkomið frumvarp fjallar um þannig að fólk geti raðað þvert á lista. Þetta mál er hins vegar komið til þings og er í meðförum allsherjarnefndar en það er mikilvægt að hreyfa því að landið verði gert allt að einu kjördæmi. Þetta mál þarf að koma fram fljótlega, einhvern tímann í vetur þannig að það fái eðlilega vinnumeðferð á þessu þingi og næsta, verði hugsanlega gert að lögum á þessu kjörtímabili. Síðan þarf að gera það að lögum aftur eftir kosningar og þá er hægt að breyta stjórnarskrá. Því vildi ég heyra viðhorf framsóknarmanna til þessara brýnu umbótamála á vettvangi lýðræðisins.