138. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2009.

staða dreif- og fjarnáms.

[11:22]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Eygló Harðardóttur fyrir að vekja máls á þessu mikilvæga máli á Alþingi. Við erum að ræða hér um ákveðið grundvallarmál, þ.e. réttindi fólks um jafnt aðgengi að menntun án tillits til efnahags eða búsetu. Ef við tökum fyrst framhaldsskólastigið hafa verið stigin stór skref á undanförnum árum í þá átt, m.a. í byggðarlögum eins og á Patreksfirði, á Þórshöfn, í Fjallabyggð og vonandi á fleiri stöðum þar sem ungu fólki, 16 ára gömlu, er nú loksins gefinn kostur á að stunda nám í heimabyggð. Við höfum oft rætt það hér á vettvangi þingsins hversu erfið þau spor eru fyrir ungt fólk að fara fjarri sínum heimahögum 16 ára gamalt, út í hinn erfiða heim. Það eiga að vera sjálfsögð lífsgæði og réttindi þessara einstaklinga að geta stundað nám heima við. Hvað þá á þeim tímum sem við lifum núna þar sem mikill samdráttur er hjá mörgum fjölskyldum. Þar sem það er dýrt að senda ungt fólk að heiman til náms hefur það oft leitt af sér og gæti leitt af sér í auknum mæli að fólk hafi einfaldlega ekki efni á því að senda unga fólkið að heiman. Þá verður viðkomandi fjölskylda annaðhvort að flytja með unglingnum eða að hann hefur ekki kost á því að stunda framhaldsskólanám.

Framhaldsskólaprófið í dag er eins og landsprófið var í gamla daga og við þurfum að átta okkur á því að við erum komin inn í nýja öld. Að sjálfsögðu eigum við að auka aðgengi fólks að háskólamenntun og þá jafnt hvort sem það býr á höfuðborgarsvæðinu eða á landsbyggðinni. Það er þess vegna mikið áhyggjuefni ef skera á mikið niður í þessu því að við höfum verið að byggja upp háskólamenntun á landsbyggðinni, m.a. Þekkingarnet Austurlands, og ég hvet hæstv. ráðherra til þess að standa (Forseti hringir.) vörð um að við höldum áfram að byggja upp háskólamenntun á landsbyggðinni. Það er grundvallarbyggðamál á Íslandi í dag og ég hvet hæstv. ráðherra til að setja starfshóp á stofn til að móta einhverja framtíðarsýn í þessum efnum.