138. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2009.

fjárhagsstaða dómstóla.

[13:56]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ólöfu Nordal fyrir að hefja þessa umræðu. Einnig þakka ég dómsmálaráðherra fyrir hennar skýru og málefnalegu svör og fyrir að taka undir með okkur sem höfum áhyggjur af dómsvaldinu, sérstaklega í þeirri stöðu sem við erum í. Mér finnst samt ósanngjarnt, bæði af þeim þingmönnum Samfylkingarinnar og Vinstri grænna sem hér hafa talað, að segja að þetta sé einhver ákvörðun sem menn verði bara einfaldlega að taka. Þetta er ekki þannig.

Sá niðurskurður sem ríkisstjórnin fer í er ákvörðun ríkisstjórnarinnar. Við höfum sagt og ég er þeirrar skoðunar að það sé farið allt of bratt í niðurskurð þannig að það gangi inn að beini í velferðarkerfinu.

Ég tek undir með hv. þm. Steinunni Valdísi Óskarsdóttur um að niðurskurðarkrafan á dómstóla sé allt of mikil, en bendi á að Samfylkingin er í ríkisstjórn og það er Samfylkingin sem getur breytt þeirri ákvörðun.

Ég fagna því sérstaklega sem kom fram í máli hæstv. dómsmálaráðherra að það eigi að fjölga dómurum en bendi um leið á að það verður ekki eingöngu gert með því að hækka dómsmálagjald. Ef þingfestingargjaldið til að mynda verður orðið of hátt getur það fælt þá frá sem eiga litla fjármuni og treysta sér ekki til að fara í dómsmál. Við verðum líka að horfa á það að gjafsóknarkostnaður hefur verið lækkaður.

Svo vil ég segja að lokum að það er alveg rétt að álag á milli dómstóla er mismunandi. Auðvitað fer það bara eftir því á hvaða tímum við lifum en það er hægt að breyta því innan núverandi kerfis og ég hvet enn á ný dómsmálaráðherra (Forseti hringir.) til að beita sér fyrir því að álag á dómstóla verði jafnt.