138. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2009.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

112. mál
[14:22]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka andsvar hæstv. forsætisráðherra. Það er alveg rétt að það kemur ekki fram í frumvarpinu okkar, ekki í textanum sjálfum, að þjóðaratkvæðagreiðslur eru ráðgefandi. Við töldum að það væri búið að fara nógu oft yfir það mál og það lægi kannski í augum uppi að svo sé en það er alveg rétt að formsins vegna þarf það kannski að koma fram í frumvarpinu sjálfu og er alveg sjálfsagt mál að það geri það því að það þarf að vera tryggt að það leiki enginn vafi á því.

Hvað varðar Lýðræðisstofu var hugmyndin að staðsetja hana eins og við gerðum, einfaldlega fyrsta tilraun til að finna henni pláss væri einhvers staðar í stjórnsýslunni þar sem hún mundi valda sem minnstum deilum. En það má svo að sjálfsögðu skoða það frekar hvar hún ætti heima.

Hvað varðar annað sem hæstv. forsætisráðherra tæpti á að — bíddu, nú er ég búinn að gleyma því. (Gripið fram í.) Það var ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslan og Lýðræðisstofan, það voru þessi tvö mál og ... (Gripið fram í.) Já, hvaða mál það væru sem hægt væri að knýja fram á þingi, þakka þér fyrir, hv. þingmaður. Það er alveg rétt og það kemur fram í greininni að hugsanlega megi taka út fyrir sviga mál eins og t.d. fjárlög hvers árs og önnur mál sem nauðsynleg eru til að reka ríkið frá degi til dags eða frá ári til árs, sem og breytingar á hegningarlögum sem ég tel mjög mikilvægt að menn geti ekki gert að dægurmáli í þjóðaratkvæðagreiðslum eins og við höfum orðið vitni að t.d. í Bandaríkjunum þar sem menn eru að krefjast alls konar þyngingar refsinga eftir því sem vindurinn blæs. En það er líka eitthvað sem ég tel að allsherjarnefnd ætti að skoða með opnum huga, allar þær takmarkanir, því að sjálfsögðu þurfa einhvers konar takmarkanir að vera á því með hvaða hætti þeim verður best fyrir komið og ég fagna því sem áheyrnarfulltrúi í allsherjarnefnd að fá að taka þátt í þeirri vinnu.