138. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2009.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

112. mál
[17:03]
Horfa

Anna Pála Sverrisdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst afskaplega hugulsamt af hv. þingmanni að auðvelda þingheimi hugarreikninginn með þessari breytingu í 10%, en ítreka að þetta er nokkuð sem ég hef ekki myndað mér eindregna skoðun á og vil að verði skoðað mun betur. Um leið ítreka ég stuðning minn við grundvallarhugmyndina.

Varðandi það að þjóðaratkvæðagreiðsla sé ekki haldin samhliða öðrum kosningum getur það vissulega dregið athygli hvort frá öðru. Á móti kemur að ég held að ágætt sé að hafa þessa heimild inni af því að þjóðaratkvæðagreiðsla um eitthvert tiltekið málefni getur í rauninni líka fallið vel saman við kosningabaráttu sem snýst auðvitað um mismunandi málefni á hverjum tíma. Þannig held ég að aðalefnið í einhverjum ákveðnum kosningum geti farið vel saman við þjóðaratkvæði og þess vegna væri ágætt að hafa þessa heimild inni, eins og ég segi af því að vissulega er mikill tilkostnaður við að halda kosningar. Ef hægt er að halda tvennar í einu finnst mér það jákvætt.