138. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2009.

fjárlagagerð.

[10:42]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Hv. fyrirspyrjanda og öðrum er væntanlega vel ljóst að það eru ákaflega mörg erindi og óskir sem fjármálaráðuneytið fellst ekki á á Íslandi við núverandi aðstæður. Það er mikið um að sagt sé nei í fjármálaráðuneytinu (Gripið fram í.) enda mundi ekki fara vel ef menn stæðu ekki í lappirnar gagnvart því að reyna að halda sig við þau markmið um ýtrasta aðhald og sparnað í útgjöldum sem við verðum að viðhafa. Hitt er annað mál að auðvitað geta komið upp einhver álitamál og ágreiningsmál og ég kannast við það að iðnaðarráðuneytið kvartaði undan því þegar fjárlagafrumvarpið kom fram að orðið hefði einhver misskilningur um meðferð tiltekinna liða þar, varðaði það sem að mati iðnaðarráðuneytisins sneri að því að skapa svigrúm til að halda inni fjárveitingum til m.a. markaðssetningar í ferðaþjónustu og öðru slíku sem ráðuneytið taldi sig hafa skorið niður annars staðar á móti. Ég er mér meðvitaður um þann ágreining ef svo má að orði komast sem þarna var uppi, en hitt vissi ég ekki að iðnaðarráðuneytið hefði leitað á náðir fjárlaganefndar sérstaklega án þess að hafa um það samráð við fjármálaráðuneytið.

Ég þakka síðan hv. þingmanni þau orð sem hann viðhafði. Það er mjög mikilvægt að við getum unnið þetta saman og staðið saman í þessum erfiðu aðstæðum. Það er alveg ljóst að fjárlaganefnd glímir við mjög erfið og stór verkefni við afbrigðilegar aðstæður. Til viðbótar því sem þar er hefðbundið á dagskrá á þessum árstíma hefur þar verið stórt mál og ég vona að myndin fari að komast á þetta, að fjáraukalagafrumvarp verði afgreitt innan skamms. Það væri æskilegt að koma því frá þannig að fjárlaganefnd gæti svo að öðrum málum loknum einbeitt sér að lokavinnunni við fjárlagafrumvarpið sjálft og að tekjuöflunarfrumvörp liggi fyrir í þessum mánuði þannig að menn geti hafið afstemmingar og (Forseti hringir.) undirbúning undir lokaafgreiðsluna.