138. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2009.

áform ríkisstjórnarinnar í skattamálum.

[11:05]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir að forseti skuli hafa beitt sér fyrir því að þessi mikilvæga umræða færi hér fram. Það er staðreynd að ríkisstjórnin hefur ekki svarað þinginu neinu um það með hvaða hætti hún hyggst loka fjárlagagatinu. Fjárlagafrumvarpið sem lagt var hér fram í upphafi þingsins er uppfullt af spurningarmerkjum og götum. Margar spurningar standa þar og þeim er ósvarað um það með hvaða hætti ríkisstjórnin hyggst loka fjárlagagatinu.

Að undanförnu hefur ríkisstjórnin helst tjáð sig um áform sín í skattahækkunarmálum á tröppum Stjórnarráðsins en ekki hér í þingsölum. Það er hérna sem ég tel að umræðan eigi heima. Við skulum hafa í huga hversu langt er liðið á þennan vetur og hversu fáir dagar það eru sem við höfum til stefnu til þess að taka og klára umræðuna um það hvernig þessu mikilvæga verkefni verður lokið. Ég vil nefna það sérstaklega hér að í því efni hefur ekki nokkurt einasta samráð verið haft við stjórnarandstöðuna.

Ég vil ræða stuttlega um það hér hvert ég tel verkefnið vera. Af þeirri umræðu sem átt hefur sér stað að undanförnu sýnist mér að það sé mikill skoðanamunur um þetta mikilvæga atriði. Vinstri stjórnin segir að nú þurfi að bæta fyrir þann skaða sem nýfrjálshyggjan hafi valdið skattkerfinu í landinu. Því er haldið fram að vandamálið liggi í því að skattar hafi lækkað svo mikið að tekjustofnar ríkisins standi ekki lengur undir gjöldunum. Með þessu er sem sagt verið að segja að vandinn liggi í því að fjárlagagatið stafi af of lágum sköttum. Þetta stenst enga skoðun.

Fjárlagagatið er ekki til komið vegna þess að skattar hafi lækkað svona mikið á Íslandi, (Gripið fram í.) fjárlagagatið er vegna þess að skattstofnarnir hafa gefið eftir. Það var hér mikill glannaskapur í fjármálakerfinu sem á endanum leiddi til þess að bankarnir fóru á hausinn og þjóðin var send inn í efnahagskrísu. Laun hafa lækkað, gjaldmiðillinn féll, verðbólga rauk upp, skuldir hafa vaxið, bæði hjá heimilum og fyrirtækjum, vextir hafa verið háir um langa hríð og kaupmáttur hefur af öllu þessu dregist mjög saman. Allt þetta samanlagt hefur skaðað skattstofna ríkisins þannig að skyndilega hefur stórlega dregið úr tekjunum.

Hversu mikið hefur dregið úr tekjunum? Hvernig hafa tekjur ríkisins af sköttum þróast undanfarin ár? Hvað er til í þeirri fullyrðingu að skattaframkvæmdin undanfarin ár hafi lagi skattkerfið í rúst, eins og nú er mjög oft haldið fram? Það merkilega er að þrátt fyrir öll áföllin hafa skatttekjur ríkisins haldið í við verðlag frá árinu 2003. Skatttekjurnar höfðu reyndar hækkað langt fram úr verðlagi ef miðað er við árið 2007, verðlag hafði þá hækkað á árabilinu frá 2003–2007 um 20% en skatttekjur höfðu hækkað um 71%. En ef miðað er við fjárlög þessa árs hafa skatttekjur hækkað frá árinu 2003, jafnmikið og verðlag í landinu. Sama verður því miður ekki sagt um gjaldahliðina, um útgjöld ríkisins.

Verkefnið er þess vegna þetta, að koma skattstofnunum aftur í lag þannig að þeir fari að nýju að skila ríkinu tekjum. Áform ríkisstjórnarinnar eru þinginu fullkomlega óljós. Eins og ég vék að áðan birtist ekkert um þetta í fjárlagafrumvarpinu sem hald er í. Í sumar var gerður stöðugleikasáttmáli við aðila vinnumarkaðarins og þar var gert ráð fyrir því að skatttekjurnar mundu vaxa um 54 milljarða á þremur árum en samkvæmt því sem nú sést í fjölmiðlum hyggst ríkisstjórnin hækka skattana um 90 milljarða á þessu og næsta ári langt umfram það sem ríkisstjórnin gat um fyrr í sumar.

Við sjáum að á þessu ári, árinu 2009, er meiri halli á ríkissjóði en að var stefnt. Það segir mér að ríkið gætir þeirrar aðhaldskröfu sem upp var lagt með á þessu ári og er það mikið áhyggjuefni. Það stefnir í 30 milljarða verri afgang á þessu ári, 30 milljarðar eru 1/3 af þeim lánum sem við vorum að fá aðgang að eftir endurskoðun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, 1/3 af þeim lánum, og þau eru jú ætluð til þess að fjármagna að hluta til hallann á ríkissjóði. Vandinn vex því bara undir stjórn þessarar ríkisstjórnar.

Við sjáum líka af nýrri skýrslu frá ríkisendurskoðanda að skattar sem nýlega hafa verið ákveðnir skila ekki þeim tekjum sem að var stefnt. Af öllu þessu leiðir að ríkisstjórnin skuldar okkur svör, hún skuldar okkur skýr svör um það hvaða leið það er sem hún er með í huga og sú umræða þarf að eiga sér stað hérna inni á þinginu.

Rætt hefur verið um norrænt velferðarkerfi. Ég tek undir með einum prófessor sem sagði í vikunni að miðað við það sem maður hefur heyrt í fjölmiðlum sýnist manni að ríkisstjórnin sé að hugsa um að taka upp allt það versta í norræna skattkerfinu en sleppa öllu því besta. Stéttarfélögin lýsa yfir áhyggjum sínum. Framkvæmdastjóri BHM segir: Mér sýnist að ríkisstjórnin sé að gefa veiðileyfi á félagsmenn mína, kennara, leikara, hjúkrunarfræðinga, iðjuþjálfa, fréttamenn. Þetta er ekki hátekjufólkið í landinu. Menn reikna sér til og segja: Ja, það eru lítils háttar hækkanir á sköttum á þá sem eru í millitekjuþrepinu. En við verðum auðvitað að hafa í huga að það fólk hefur líka gert ráðstafanir miðað við sínar ráðstöfunartekjur og verðlag heldur áfram að hækka. Miðað við fjárlögin sem lögð voru fram munu skuldir þessa fólks hækka um 1% bara vegna þeirra skatta sem verið er að kynna, sem mun hækka verðlag í landinu, þannig að skattprósentan er eitt, aðrar álögur sem lenda á fjölskyldum og heimilum í landinu eru síðan annað.

Menn hafa verið að reikna það út hér í blöðum, miðað við þær takmörkuðu upplýsingar sem við höfum úr að spila, að þeir sem eru með á bilinu í kringum 300.000 kr. í laun á mánuði muni e.t.v. fá svona 1.000 kr. skattalækkun á mánuði. Sú skattalækkun verður tekin af viðkomandi næst þegar hann fyllir tankinn á bílnum sínum og í þeim mánuði mun hann væntanlega tapa u.þ.b. 3.000 kr. við dæluna en ríkisstjórnin ætlar að gefa 1.000 kr. í afslátt af sköttunum. Við þurfum að fá miklu skýrari svör um alla þessa hluti.

Meginatriðið er þetta: Það er hægt að hækka tekjur ríkisins með öðru en að hækka skattana. Við höfum bent á leiðir, þær eru raunhæfar, þær felast í því að ríkið taki til sín frestaðar skatttekjur í lífeyrissjóðakerfinu. Horfum á séreignarsparnaðinn. Með því að nýta þá leið getum við lokað fjárlagagatinu, við getum komið í veg fyrir frekari skuldasöfnun ríkisins á meðan við förum í gegnum erfiðasta tímabilið. Við getum veitt atvinnulífinu súrefni og við getum linað erfiðleikana fyrir heimilin í landinu, sem eru nógir fyrir.

Þær aðgerðir sem verið hafa til umræða að undanförnu hafa lamandi áhrif á hagkerfið og allt samfélagið. Þær eru vinnuletjandi fyrir fólkið í landinu, þær ýta undir óánægju og vanlíðan og þær geta beinlínis leitt til fólksflótta frá landinu þegar allt er tekið með í þeirri efnahagskrísu sem við erum í núna.

Þessi ríkisstjórn hefur þá skyldu að hlífa almenningi í landinu, (Forseti hringir.) hún verður að byggja upp bjartsýni og trú. Það gerir leið Sjálfstæðisflokksins, hún sýnir að við þurfum ekki að leggja að óþörfu nýjar byrðar á heimilin og fjölskyldurnar vegna þess að við eigum frestaðar skatttekjur sem við eigum að nýta við þessar óvenjulegu aðstæður. (Forseti hringir.) Skylda okkar er að byggja upp trú og reyna að efla samstöðuaðgerðir. Það hefur ríkisstjórninni algjörlega mistekist að gera.