138. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2009.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[20:46]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var ekki greinargott svar. Ég spurði nákvæmrar spurningar. Hvernig hyggst ráðherrann fara með það ef sú staða kemur upp, vegna þess að fast verð er 120 kr. á kílóið, að fleiri á því tímabili sem hann leggur upp með sækjast eftir því að fá slíkar heimildir heldur en hann raunverulega hefur aflaheimildir til þess að veita? Þar koma upp atriði sem snúa að stjórnsýslureglum og skyldum ráðherrans. Hvaða réttarstöðu hefur t.d. sá útgerðarmaður sem sækir um og aðrir eru komnir ef búið er að úthluta þessu öllu saman á þessu verði, á hvaða málefnalegum grundvelli ætlar ráðherrann að segja já við einn en hafna öðrum? Þetta verður að liggja fyrir vegna þess að ekki er hægt að gera eins og hæstv. ráðherra sagði í andsvari sínu, að bíða og sjá til hvernig það gerist. Þetta verður að liggja fyrir algerlega kristaltært áður en menn fara af stað þannig að menn viti hvernig á því verður tekið komi slík staða upp. Það er ekki hægt að segja eins og hæstv. ráðherra sagði áðan að menn yrðu að bíða og sjá til.