138. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2009.

lyfjalög.

198. mál
[16:14]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Ég vil vekja athygli á því að nefndinni sem hér um ræðir, og var undir forustu hv. þm. Péturs Blöndals, var falið í nóvember 2007 að kanna hvort og þá með hvaða hætti hægt væri að fella læknis-, lyfja-, rannsókna-, sjúkraþjálfunar- og allan annan heilbrigðiskostnað undir eitt niðurgreiðslu- og afsláttarfyrirkomulag eins og við þekkjum. Mikill tími nefndarinnar fór í söfnun upplýsinga og umræður um fyrirkomulag nýs greiðsluþátttökukerfis.

Gerður var samningur við Skýrr um söfnun upplýsinga og gert ráð fyrir að fjármagn fengist á fjárlögum 2009 fyrir kostnaði við þá vinnu. Það reyndist hins vegar ekki raunin og því var nefndin lögð niður. En áður hafði þó Skýrr tekið saman 44 síðna skýrslu með upplýsingum um greiðsluþátttöku almennings í heilbrigðiskerfinu hjá allflestum nema tannlæknum og var heildarkostnaður við verkefnið þá kominn í 18 millj. kr.

Hv. þingmaður spyr hvort það sé vilji þeirrar sem hér stendur að hætta við þetta verkefni. Ég verð að segja að mér finnst fráleitt að kasta á glæ slíkri vinnu sem hafa verið lagðar til 18 millj. kr. eins og hér kemur fram, og tel eðlilegt að reyna að finna leiðir til að nýta þær upplýsingar sem þarna hefur verið safnað saman og þá vinnu sem fjölmargir hafa lagt í þetta verkefni, til áframhaldandi lækkunar á lyfjakostnaði og til hagsbóta fyrir þá sem þurfa að njóta heilbrigðisþjónustu.

Við vitum að nú borga sjúklingar 17–18% beint úr buddunni af læknis- og heilbrigðisþjónustu. Það má ekki meira vera. Ef hægt er að jafna þessum kostnaði betur og nýta til þess þær upplýsingar (Forseti hringir.) sem svokölluð Péturs-nefnd safnaði þá tel ég til einhvers unnið.