138. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2009.

staða minni hluthafa.

24. mál
[21:18]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er ágætt að þessar fyrirætlanir koma fram í umræðunni og ástæða til að fagna því að við fáum tækifæri til að ræða þær. Ég tel þó að ágætt sé að við hugum að efni þingsályktunartillögunnar, sem hér hefur verið lögð fram, um að áframhaldandi skoðun á þessum málum fari fram. Hugmyndirnar sem lagðar eru fram eru ágætar og ég kannast við þær úr vinnu og skýrslu þeirrar nefndar sem ég vitnaði til áðan. Ég er nokkuð sannfærður um að ástæða er til að halda áfram með þá vinnu, bæði vegna þess að í kjölfar hrunsins er ástæða til að skoða þetta enn frekar en gert var árið 2004 og eins að þegar við hyggjum að því hvernig best sé að byggja efnahagslíf okkar upp kunna að vera fleiri sjónarmið sem við þurfum að fá sérfræðinga til að vinna. Slík vinna getur tekið einhvern smátíma en mikilvægt að hún fari af stað til að bæta við þær hugmyndir sem hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra hefur verið að kynna og hv. þm. Lilja Mósesdóttir nefndi áðan, því ég held enn og aftur að hægt sé að ná fram mjög góðri pólitískri sátt um það hvernig við höldum á þessum málum til að ná þeim árangri sem ég lýsti í ræðu minni áðan.