138. löggjafarþing — 28. fundur,  18. nóv. 2009.

starfsemi skattstofa á landsbyggðinni.

126. mál
[12:02]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Þann 28. september sl. gaf forsætisráðuneytið út fréttatilkynningu um áform um endurskipulagningu opinberrar þjónustu. Þar er í einum 19 liðum gerð grein fyrir þeim áformum sem hæstv. ríkisstjórn hefur um breytingar á ýmsum þáttum sem lúta að skipulagningu stofnana ríkisins um allt land og jafnframt er gerð grein fyrir þeim meginsjónarmiðum sem þar liggja að baki. Í sjálfu sér ætla ég ekki að fara mörgum orðum um það, en vek þó athygli á að í fréttatilkynningunni er m.a. lögð áhersla á að við endurskipulagningu opinberrar þjónustu á stjórnsýslu sé horft til framtíðar og hugað að uppbyggingu um land allt. Þessi síðasti hluti setningarinnar er mjög þýðingarmikill vegna þess að við þekkjum það að oftar en ekki þegar menn hafa farið í slíka endurskipulagningu hefur hún leitt til þess að störfum hefur fækkað á landsbyggðinni og verkefnin hafa flust inn á höfuðborgarsvæðið.

Enn fremur segir í þessari fréttatilkynningu, með leyfi virðulegs forseta:

„Svæðaskiptingin hefur þó aðeins óbein áhrif á stjórnsýslu og þjónustu sem ekki er í eðli sínu staðbundin.“

Í sjálfu sér er starfsemi skattstofa, sem hér er verið að spyrja um, ekki endilega staðbundin. Það mætti auðvitað hugsa sér að skipulag skattstofanna sé með einhverjum öðrum hætti en nú er. Í dag má segja sem svo að skattstofurnar séu staðbundnar en þær þurfa hins vegar ekki endilega að vera það í eðli sínu. Það væri hægt að hugsa sér annað skipulag sem fæli í sér starfsemi á skattstofunum þar sem hlutverk einstakra skattstofa yrði skilgreint með öðrum hætti en nú er gert ráð fyrir.

Ég nefni þetta sérstaklega vegna þess að í 4. tölul. þeirrar upptalningar sem fram kemur í fréttatilkynningunni sem ég hef gert að umræðuefni er talað um að landið verði gert að einu skattumdæmi, að embætti ríkisskattstjóra og skattstofa landsins verði sameinuð í eitt embætti en síðan verði verkefnum skattkerfisins áfram sinnt víðs vegar um landið. Þess vegna hef ég leyft mér að spyrja hæstv. fjármálaráðherra:

1. Hefur verið ákveðið eða eru uppi áform um að leggja niður skattstofur á landsbyggðinni? Ef svo er, hverjar?

2. Eru áform um að auka verkefni skattstofa á landsbyggðinni, til dæmis með því að færa til þeirra umsýslu og framkvæmd einstakra málaflokka á sviði skattamála?