138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:59]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er algjörlega fáránlegt, svo að maður taki svo sterkt til orða, að ráðherrarnir hvor um sig vísi til einhverra óformlegra funda. Maður veltir því fyrir sér hvort einhverjir þessara funda hafi verið haldnir þegar menn rákust hvern á annan í anddyri eða voru hugsanlega saman í tíu sekúndur í lyftu.

Það hlýtur að vera skilyrði þegar menn ræða um eitthvert mikilvægasta mál Íslandssögunnar að þeir setjist niður með embættismönnum og það sé gerð fundargerð af þeim fundum. Við skulum átta okkur á einu, á þessum formlegu fundum gera gagnaðilarnir fundargerð. Af hverju er það? Jú, vegna þess að næst þegar menn ræða um það sem fram fór á fundinum vilja þeir hafa eitthvað máli sínu til stuðnings. Ef ekki er fundargerð til þess að vísa í á móti standa orð gagnaðila einfaldlega. Þetta er mjög einföld samskiptaregla og ég gef afar lítið (Forseti hringir.) fyrir þau orð hæstv. fjármálaráðherra og utanríkisráðherra að þeir hafi rætt málið óformlega. (Forseti hringir.) Það liggur fyrir að það hefur engu skilað.