138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

verkaskipting milli heilbrigðisráðuneytis og félags- og tryggingamálaráðuneytis vegna hjúkrunarheimila.

[14:32]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Við sjáum að hér eru himinn og haf á milli skoðana hæstv. ráðherra. Hvað segir hæstv. félagsmálaráðherra í umræðunni? Það er hætt við því að yfirsýn yfir málaflokkinn rofni, það er hætt við því að heilbrigðisþjónustan verði ekki eðlileg. Hæstv. heilbrigðisráðherra segir líka: Málið er í höndum þingsins — þingmenn skulu hlusta vel á þetta — og hæstv. heilbrigðisráðherra er ekki sannfærð um að þetta sé til bóta. En málið er í höndum þingsins. Þetta er ákall frá hæstv. heilbrigðisráðherra til okkar þingmanna um að stoppa þetta mál. Það er ekki hægt að túlka orð hæstv. heilbrigðisráðherra öðruvísi.

Allir sem þekkja til þessara mála vita að hæstv. síðasti heilbrigðisráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson, tók slaginn og stoppaði þetta af. Þá var reynt að færa hjúkrunarheimili milli ráðuneyta en það var stoppað. En núna dettur þetta af himninum ofan í fjárlagagerðinni og það er geysileg óánægja með þetta.

Hér segja þeir sem styðja það að færa hjúkrunarheimilin yfir: Er öldrun sjúkdómur? Svarið er nei. Hver heldur því fram? Við viljum að allir séu sem lengst heima en svo kemur að því að fólk þarf að fara á hjúkrunarheimili og af hverju? Það er af því að það þarf heilbrigðisþjónustu vegna margháttaðra sjúkdóma. Það er það sem gerist. Hjúkrunarheimili er sjúkrastofnun, sama hvað menn segja, þess vegna á ekki að færa þetta yfir. Er öldrun félagsmál? Svarið er líka nei við því og það á að passa upp á það að við förum ekki út í þá breytingu. (Forseti hringir.) Við eigum að hlusta á það sem hæstv. heilbrigðisráðherra hefur sagt, þetta er trúlega ekki til bóta. (Forseti hringir.) Málið er í höndum þingsins. Nú stöndum við okkur hérna megin. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)