138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:01]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Óhjákvæmilega er Icesave-samningurinn það. Að vísu koma til aðrar skuldir. Hvaða skuldir eru það? Það eru lántökurnar frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og það er það sem við erum að borga á hverjum einasta degi fyrir það að hafa hér óeðlilega hátt vaxtastig sem er alveg gífurlega dýrt og eykur skuldsetningu ríkisins. Þetta hvort tveggja eru atriði sem hægt væri að takast á við en Icesave-samningarnir ráða þarna mestu. Þeir fela í sér gríðarlega háa skuldbindingu sem verður óhjákvæmilega hér til a.m.k. 15 ára og að öllum líkindum, ef ríkisstjórnin fær sínu fram, miklu, miklu lengur en það. Þá er dæmið ákaflega einfalt, útflutningur vöru og þjónustu er miklu meiri en innflutningur, það er afgangur en sá afgangur og meira til rennur í það að borga vexti, ekki hvað síst af Icesave, og afleiðingin er sú að gengið veikist jafnt og þétt.