138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:03]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég taldi mig hafa talað um þá í ræðu minni, þessa leiki sem alltaf eru settir upp til að þvinga fram niðurstöðu. Þetta er að verða þreytt, menn eru farnir að sjá í gegnum þetta og ég held að þetta sé ekki alveg rétt, það gerist ekkert 30. nóvember, ekki nokkur skapaður hlutur. Ég færði meira að segja rök fyrir því að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn ætlar að fara að starfa án tillits til Icesave, Norðmenn ætla að lána okkur án tillits til Icesave, það gengur allt saman áfram án tillits til Icesave. Þess vegna hef ég lagt til að fresta bara þessu máli fram á vor og ríkisstjórnin geti þá farið að kynna þessa fyrirvara frá því í sumar — því að þau lög eru í gildi og Bretar og Hollendingar eru ekki búnir að hafna þeim, þau eru sem sagt í gildi — og sannfæra Breta og Hollendinga um að senda okkur lítið bréf um að þeir samþykki fyrirvarana í lögunum frá Alþingi.