138. löggjafarþing — 31. fundur,  25. nóv. 2009.

sjóvarnir við Vík.

149. mál
[14:58]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka ágætar umræður um málið og fín og jákvæð og skýr og skelegg viðbrögð hæstv. ráðherra. Þetta er grafalvarlegt mál og um er að ræða verulega fjármuni þannig að nauðsynlegt er að ræða þetta með formlegum hætti á vettvangi þingsins. Þetta er verksvið sem snertir fleiri en einn ráðherra, ofanflóðasjóður heyrir undir umhverfisráðherra, og því þarf að ræða málið formlega og taka þetta mjög föstum tökum þannig að við, eins og einn þingmaðurinn í umræðunni orðaði það, finnum ásættanlega lausn.

Við þingmenn kjördæmisins funduðum með sveitarstjóra Víkur fyrir nokkru síðan sem skömmu seinna fundaði með samgönguráðherra. Málið hefur verið tekið fyrir á vettvangi SASS, Sambands sunnlenskra sveitarfélaga, þar sem afdráttarlausar ályktanir hafa verið í þá veru að málið þoli enga bið eins og hæstv. ráðherra sagði og ég tek eindregið undir það.

Það eru mjög jákvæðar fréttir upp á framkvæmdina og kostnaðinn að grjótflutningar geti átt sér stað úr Landeyjahöfn sem nú er verið að byggja í þetta stóra verkefni af því að stórbrim í vetur getur valdið þarna mjög miklu tjóni, upp á hundruð milljóna, á verðmætum mannvirkjum, íþróttamannvirkjum og skólamannvirkjum, þannig að tjónið sem af því getur hlotist er miklu meira en kostnaðurinn við þær fjárfestingar sem í garðinum sjálfum felast eins og ráðherra nefndi áðan.

Ég held að það væri mjög heppilegt að ná samstöðu um að ofanflóðasjóður komi inn í þetta mál. Sá sjóður á að mér skilst um 6 milljarða króna þannig að hann getur vel mætt þessu verkefni sem er eins og kom fram eitthvað á bilinu 150–200 millj. kr. eftir því hve hagstæð tilboð berast í verkefnið.

Ég þakka viðtökur þingmanna úr öllum flokkum og hæstv. ráðherra hér í dag. Ásættanleg lausn mun finnast. Verkefnið þolir enga bið, við þurfum að leysa þetta á næstu vikum, bjóða verkið út þannig að farið verði í það í janúar eins og hæstv. ráðherra sagði.