138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:12]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þessa ræðu og nýjan athyglisverðan vinkil á Icesave-málið sem kallar væntanlega enn og aftur eftir því að gert verði hlé á Icesave og að við tökum inn skattamálin til þess að hægt sé að fara yfir þessa útreikninga og að við fáum sérfræðinga inn í nefndirnar.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann telji að það sé möguleiki að þetta sem er að gerast núna í Dúbaí geti orðið til þess að það verði önnur heimskreppa. Veit hann til þess að einhvers konar undirbúningur sé í gangi hér hjá stjórnvöldum eða stjórnsýslunni til að tryggja t.d. einfalda hluti eins og matvælaöryggi og annað? Eins og allir vita erum við í verulegum gjaldeyrisvandamálum og það stóð ekki til að nota þann gjaldeyri sem við fengum frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Telur hann að þetta gæti jafnvel orðið til þess að við þurfum að nota allan þennan varaforða?

Þá langar mig að spyrja hvort hv. þingmaður telji að við getum staðið undir þessum skuldbindingum varðandi Icesave og öllum hinum skuldbindingunum. Ef maður tekur saman samkvæmt útreikningum Þórs Saaris allar erlendu vaxtagreiðslurnar er þetta tekjuskattur um 150.000 Íslendinga árlega. Telur hv. þingmaður að við getum staðið undir þessum skuldbindingum án þess að grunnstoðir samfélagsins bresti?