138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[11:11]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla að fá að halda áfram frá því síðast þegar ég hélt mína fyrri ræðu. Ég komst ekki alveg jafnlangt og ég hafði vonað í þeirri ræðu.

Það er ástæða til þess að rifja upp, þótt hv. þm. Siv Friðleifsdóttir hafi rætt sumt af því sem ég talaði um í minni fyrri ræðu. Það eru hin svokölluðu Brussel-viðmið sem mikið hefur verið rætt um, alla vega hér á þingi og í íslensku samfélagi en því miður virðast þau hafa verið rædd mun minna á vegum samninganefndarinnar í samningaviðræðum við Breta og Hollendinga. Ég fór líka í minni fyrri ræðu aðeins í gegnum forsögu þessu máls og hver væri í rauninni ástæðan fyrir því að við stæðum frammi fyrir þessu. Þá ítrekaði ég þá skoðun mína að þrátt fyrir að náttúrlega séu mikil átök á milli stjórnarliða og stjórnarandstæðinga um þetta mál verður að vera algjörlega skýrt hvar grunnábyrgðin í því liggur. Hún liggur í ákvarðanatöku stjórnenda Landsbankans. Þegar farið var að skoða þrotabú bankanna kom mjög fljótlega í ljós að Kaupþing, sem hafði líka farið út í að stofna reikninga erlendis til þess að afla fjár, hafði verið mun gætnara hvað varðar að vera með nægilegt lausafé til þess að geta endurgreitt þessa peninga tiltölulega hratt. Skilanefnd Kaupþings hefur borgað meira og minna, að því ég best veit, þær innstæður sem voru á Kaupþing Edge-reikningunum en það sama virðist ekki vera hægt að segja um Landsbankann. Það var nánast ekkert lausafé í bankanum. Skilanefnd bankans hefur ekki treyst sér til að greiða eitt né neitt enn þá út úr þrotabúinu þrátt fyrir að það séu heimildir þess efnis í lögum sem voru samþykkt hérna á sumarþingi og vorþingi.

Þegar ég kláraði ræðu mína síðast, eða var komin í hana miðja, var ég að tala um orð hv. þm. Péturs Blöndals þegar verið var að samþykkja þessa þingsályktunartillögu um hin svokölluðu Brussel-viðmið. Sama dag var þingsályktunartillagan um lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum samþykkt. Hv. þingmaður segir í andsvari sínu við þáverandi framsögumann málsins, hv. þm. Bjarna Benediktsson, að hann telji erfitt fyrir Alþingi að meta þessa samninga. Það endurspeglast kannski í því hve langan tíma hefur tekið fyrir okkur að vinna okkur í gegnum þetta mál. Það hefur verið mjög erfitt að nálgast upplýsingar um það þannig að við höfum alltaf talað um þessa samninga í bútum. Alltaf koma fram nýjar og nýjar ábendingar og meira að segja núna þegar ég og jafnvel fleiri í stjórnarandstöðunni töldu að flest væri komið upp á yfirborðið sem varðaði þessa samninga og viðaukasamninga koma nýir punktar eins og t.d. þessi gengisáhætta sem virðist alls ekki hafa verið metin nægilega vel. Daniel Gros hefur bent á þetta varðandi jafnræðisregluna sem Bretar og Hollendingar hafa nú beitt á okkur eins og hamri.

Meðal þess sem hv. þm. Pétur Blöndal sagði í desember var, með leyfi forseta:

„Við erum að fela sjálfdæmi þeim aðilum sem eru að semja fyrir okkur og það er eins gott að það séu klárustu menn í heimi. Ég bara segi ekkert annað. Það er eins gott að það séu mjög klárir menn og vinni mjög náið með skilanefndum bankanna sem eru líka að vinna að heill þjóðarinnar. Mér finnst þetta mjög mikið framsal á valdi og ætla að spyrja hv. þingmann hvort það hafi ekki verið rætt í nefndinni.“

Þá var hann náttúrulega að tala um hv. þm. Bjarna Benediktsson. Ég held að þetta sé mjög mikilvægur þáttur í þessu máli. Hæstv. fjármálaráðherra hefur verið mjög viðkvæmur fyrir þessum punkti, tekið vægast sagt mjög illa allri gagnrýni á samninganefndina og sagt að hann axli fulla ábyrgð á störfum hennar. Það er ekkert skrýtið því hann er einn af þeim sem fólu þessari samninganefnd þetta verkefni. Hann er ásamt hæstv. forsætisráðherra sá sem mótar erindisbréfið til samninganefndarinnar. Það kom einmitt fram í 2. minnihlutaáliti fjárlaganefndar á 137. löggjafarþingi. Þar segir, með leyfi forseta:

„Þann 24. febrúar 2009 gaf fjármálaráðherra út erindisbréf til þeirra sem skipa samninganefndina. Gagnrýnisvert er hve eftirgjöf á samningsstöðu Íslendinga er skýr í erindisbréfinu. Þar er gengið út frá því að samkomulag hafi náðst um að Íslendingar bæru ábyrgð á endurgreiðslu innstæðna í útibúum íslensku bankanna erlendis í samræmi við lagaramma EES um lágmarkstryggingu innstæðna. Telur 2. minni hluti“ — fulltrúi minni hlutans, hv. þm. Höskuldur Þórhallsson — „að sá grundvallarmisskilningur sem kemur fram í erindisbréfinu af hálfu fjármálaráðherra hafi átt drjúgan þátt í því að niðurstaða Icesave-samninganna var jafnslæm og raun ber vitni. Er ljóst að orðrétt túlkun á þessu erindisbréfi þrengir mjög að samningsumboði samninganefndarinnar til að nýta öll þau spil sem Íslendingar höfðu á hendi í þessu máli. Má segja að samkvæmt erindisbréfinu sé samninganefndinni aðallega falið að semja um lánstíma, vexti og aðra óljósa skilmála. Telur 2. minni hluti ámælisvert að samninganefndin hafi ekki fengið víðtækara umboð til að semja um Icesave-málið.

Annar minni hluti gagnrýnir einnig hvernig skipan aðila í nefndina var háttað og sérstaklega þá staðreynd að nefndin var ekki skipuð færustu sérfræðingum á þeim réttarsviðum sem snertu samningsgerðina.“

Eins og hv. þm. Pétur Blöndal orðaði það var þarna greinilega ekki verið að leita að klárustu mönnum í heimi. Kannski ágætlega vel gefnum mönnum en greinilega ekki klárustu mönnum í heimi eins og átti að liggja fyrir að við þyrftum á að halda í þessu stærsta einstaka máli Íslandssögunnar. Ég les áfram, með leyfi forseta:

„Í því samhengi vill 2. minni hluti benda sérstaklega á að fram hafa komið gögn sem varpa ljósi á þá staðreynd að aðstoð færustu sérfræðinga heims á þeim réttarsviðum sem til álita komu í samningsgerðinni stóð til boða, en stjórnvöld völdu þá leið að hafna slíkri aðstoð. Meðal þeirra sem buðu fram aðstoð þegar ljóst var hvert stefndi má nefna lögmannsstofuna Mischon de Reya sem áður hefur verið minnst á.“

Gestur sem kom fyrir fjárlaganefnd, sérfræðingurinn Lee Buchheit, var tilbúinn til þess að koma að þessu verkefni og kom með marga athyglisverða punkta þegar hann kom fyrir nefndina. Hann nefndi t.d. það sem hv. þm. Lilja Mósesdóttir hefur bent ítrekað á að þegar við fáumst við þrotabú, sérstaklega þrotabú af þessari stærðargráðu, þarf oft að líða ákveðinn tími þar til við gerum okkur grein fyrir því hversu miklar skuldirnar og eignirnar eru og hver staðan raunverulega er. Þegar við tölum um hrun á fjármálakerfi í heilu landi verðum við líka að gefa okkur að við þurfum tíma til þess að átta okkur á því hvernig staðan raunverulega er. Þetta hefur endurspeglast mjög skýrt t.d. í því að meira að segja Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn taldi sig vera búinn að reikna út hver skuldastaða íslenska þjóðarbúsins væri í nóvember en uppgötvaði töluvert fljótt eftir það að þarna var alls ekki rétt reiknað og bæði stofnanir ríkisins og fyrirtækja á markaði virtust engan veginn gera sér grein fyrir því hver skuldastaðan væri.

Í þessu nefndaráliti bendir hv. þm. Höskuldur Þór Þórhallsson á að það hefði verið eðlilegt í þeirri stöðu sem Íslendingar voru að þeir hefðu teflt fram Golíat gegn Golíat í stað Svavars. Þetta höfum við gagnrýnt og hæstv. fjármálaráðherra hefur sífellt orðið reiðari og farið í meiri vörn þegar það hefur verið nefnt. Klárustu menn í heimi að mati hæstv. fjármálaráðherra voru, með leyfi forseta:

„Samninganefnd Íslands skipuðu auk Svavars Gestssonar sendiherra, sem fór fyrir samninganefndinni, þau Páll Þórhallsson, deildarstjóri í forsætisráðuneytinu, Indriði H. Þorláksson, ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu“ — núverandi pólitískur aðstoðarmaður fjármálaráðherra — „Áslaug Árnadóttir, skrifstofustjóri í viðskiptaráðuneytinu, Martin Eyjólfsson, deildarstjóri í utanríkisráðuneytinu, og Sturla Pálsson, framkvæmdastjóri frá Seðlabankanum.“

Það liggja fyrir mjög litlar upplýsingar nákvæmlega um hvað þessi samninganefnd gerði. Í sumar komu fram nokkrir minnispunktar og einungis fjórir samningafundir fóru fram í sumar með ríkjunum sem hlut eiga að máli. Bent hefur verið á að miðað við þær upplýsingar sem hafa verið lagðar fram hér á þinginu um það fólk sem skipaði samninganefnd Breta og Hollendinga að þar var Golíat teflt fram. Þær voru ekkert að víkja sér undan því og virtust líka hafa bætt við einum Davíð í sama liðið. Þetta var einvalalið sem þeir lögðu fram en við hins vegar tímdum ekki að kaupa okkur færustu sérfræðinga á þessu sviði í þessu stærsta einstaka máli Íslandssögunnar.

Dæmi um þetta er að maðurinn sem ég nefndi áðan, lögfræðingurinn Lee Buchheit, er einn fremsti sérfræðingur í skuldaskilum ríkja og fjárhagslegri endurreisn eftir fjármálakreppur og hefur sérhæft sig í alþjóðlegum lánasamningum. Hann er að sjálfsögðu ekki sá eini sem hefur gert þetta. Fjöldi annarra virtra erlendra lögmannsstofa hafa gert þetta líka en maður fann aftur og aftur að það virtist vera að íslenskum stjórnvöldum hafi gjörsamlega ofboðið þeir reikningar sem þeir fengu frá m.a. breskum lögmannsstofum og lögfræðingum frá fleiri löndum og tímdu því hreinlega ekki að kaupa okkur bestu aðstoðina. Við uppskerum náttúrlega í samræmi við það. (PHB: Með þennan stóra reikning.) Ansi stór reikningur í framhaldi af því.

Með leyfi forseta ætla ég að vitna í orð lögmanns sem skrifaði í sumar í Morgunblaðið um samninganefndina:

„Það að fela manni sem hefur hvorki lögfræðilega menntun né fljúgandi færni í enskri tungu og enskri menningu, sem kaus sér til bestrar aðstoðar doktorsnema í vísindaheimspeki, til þess að leiða samningaviðræður við Breta og Hollendinga um eitt allra mikilvægasta hagsmunamál þjóðarinnar á síðari tímum verður, að mínu viti, að teljast með stærstu mistökum Íslandssögunnar og eru afglöp Fjármálaeftirlitsins og Seðlabankans í aðdraganda hrunsins þar ekki undanskilin.“

Það sýnir kannski líka hvernig vinnubrögðin voru hjá þessari samninganefnd að eins og kunnugt er voru Icesave-samningarnir undirritaðir föstudaginn 5. júní 2009 af þessum áðurnefnda ráðuneytisstjóra — sem gegndi þá starfi ráðuneytisstjóra fjármálaráðuneytisins en er núna sérstakur pólitískur aðstoðarmaður fjármálaráðherra og mikill fræðingur á ýmsum sviðum — fyrir hönd íslenska ríkisins, ásamt stjórnarformanni Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta á Íslandi. Þessi samningur var sem sagt undirritaður föstudaginn 5. júní 2009. Tveimur dögum fyrr, miðvikudaginn 3. júní, spurði hins vegar hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi hvort fjármálaráðherra gæti upplýst þingið um stöðu mála í viðræðum við bresk stjórnvöld vegna Icesave-reikninganna og hvort rétt væri að til stæði að undirrita einhvers konar samkomulag við bresk stjórnvöld, jafnvel morguninn eftir. Þingmaðurinn hélt áfram og spurði: Ef ekki á morgun, hvenær þá, hvað í slíku samkomulagi mundi felast eða hvað ráðherrann gerði ráð fyrir að fælist í þeim. Hæstv. fjármálaráðherra virtist hins vegar ekkert kannast við að það ætti að fara að undirrita neina samninga. Hann talaði um að verið væri að reyna að koma í gang formlegum samningaviðræðum en þær væru ekki hafnar heldur væru könnunarþreyfingar eða könnunarviðræður í gangi. Síðan sagði hann, með leyfi forseta:

„Ég held að ég geti fullvissað hv. þingmann um að það standi ekki til að ganga frá einhverju samkomulagi á morgun eða einhverja næstu daga og áður en til slíks kæmi yrði að sjálfsögðu haft samráð við utanríkismálanefnd“.

(Gripið fram í: Er þetta heiðarlegt?) Þetta held ég að hafi svo sannarlega ekki verið heiðarlegt. Alla vega hafa þá afköstin verið geysileg á þessum tveimur dögum þarna á milli vegna þess að tveimur dögum seinna var lagður fram og undirritaður samningur upp á 121 blaðsíðu af mjög flóknum lagatexta. Afköstin hafa greinilega verið gífurleg. Ef við gefum okkur að ráðherrann hafi sagt satt sýnir það líka hvers konar vanhæfni þessir menn sem voru skipaðir í þessa nefnd sýndu. Þeir voru ekki búnir að upplýsa yfirmann sinn um að þetta væri komið svona langt og það lægju fyrir drög að samningi, þann sem skipaði þá í nefndina og bar pólitíska ábyrgð á málinu, eins og ráðherrann hefur margítrekað og síðast í ræðustól í gær.

Sem sagt, fimmtudaginn 4. júní er þetta sagt, með leyfi forseta. Í nefndarálitinu segir:

„Fullvissa hans reyndist ekki rétt, enda varð sú framþróun í viðræðum samninganefnda ríkjanna daginn eftir, fimmtudaginn 4. júní, að sögn fjármálaráðherrans á Alþingi, að mögulegt samkomulag komst í sjónmál.“

Ég ítreka þessar spurningar. Hversu góð tengsl voru á milli bæði formanns samninganefndarinnar og þáverandi ráðuneytisstjóra hans? Getur verið að Icesave-samninganefndin hafi starfað algjörlega án vitneskju fjármálaráðherra? Að fjármálaráðherrann hafi ekki haft nokkra einustu hugmynd um hvað gekk á í samningaviðræðum ríkjanna? Eða eigum við að trúa því raunverulega að svo miklar breytingar hafi orðið á einum sólarhring að málið þróaðist frá því að vera könnunarþreyfingar eða könnunarviðræður yfir í fullunnin drög að tveimur samningum upp á samtals 121 blaðsíðu þar sem Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta á Íslandi tekst á hendur skuldbindingar upp á tæplega 741.000 millj. íslenskra króna? (Gripið fram í.) Í þeirri upphæð. Vandamálið er að þarna er nefnd upphæð en við vitum ekkert hvað þeir voru að skrifa undir. Þau skrifuðu þarna undir opinn tékka. Það eina sem við vissum var hvaða vexti við ættum að borga.

Til þess að kóróna skömmina í aðdraganda undirritunarinnar óskuðu íslensku fulltrúarnir eftir hléi á samningafundum til að fá tækifæri til að kynna þetta a.m.k. ríkisstjórninni — það var ágætt hjá þeim — og utanríkismálanefnd. Jafnframt fóru fram fundir með þingflokkunum þar sem lauslega var farið í gegnum hvers konar samning stæði til að skrifa undir — lauslega. (Gripið fram í: Í trúnaði.) Og í algjörum trúnaði. Undirritun fór síðan fram 5. júní, sama dag og kynningin.

Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir fór aðeins í gegnum það í ræðu sinni hvers konar vinnubrögð þetta voru þegar óskað var eftir trúnaði við stjórnarandstöðuna til þess að forustumenn ríkisstjórnarinnar, sem fóru fram á þennan trúnað, gætu sjálf hlaupið í fjölmiðla til þess að stjórna umræðunni. Þegar þessar samningaviðræður fóru fram, raunar áður en þetta ótrúlega gerðist, virðist — ótrúlegt en satt — formaður samninganefndarinnar hafa verið í einhverju sambandi við fjármálaráðherra, þó kannski ekki miklu sambandi miðað við það sem við fengum síðan á endanum. Fjármálaráðherra, sem ber pólitíska ábyrgð á málinu eins og hann sagði í gær, sagði að það væri „í sjónmáli að hann landi og hans fólk, glæsilegri niðurstöðu fyrir okkur“ og bætti við að hann héldi að við gætum átt þar í vændum farsælli niðurstöðu en leit kannski út fyrir.

Síðan hefur komið fram frá m.a. þingflokksformanni Vinstri grænna, hv. þm. Guðfríði Lilju Grétarsdóttur, að það virðist vera að stjórnarliðar sem gáfu samþykki fyrir þessu máli hafi alls ekki sjálfir verið búnir að kynna sér þennan samning. Enda kom það m.a. í ljós, virðulegi forseti, þegar ég lagði óundirbúna fyrirspurn fyrir hæstv. forsætisráðherra og spurðist fyrir um þær yfirlýsingar varðandi …

Ég verð væntanlega að fá að halda áfram síðar því að tíma mínum er að ljúka. Eins og þið heyrið er mjög mikið sem þarf að fara í gegnum (Forseti hringir.) og ég skal viðurkenna það, virðulegi forseti, að ég er geysilega ósátt við þetta mál.