138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:04]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef aldrei látið í veðri vaka að þetta mál geti horfið, (Gripið fram í: Flott.) aldrei, og mér er fullkomlega ljóst að við þurfum að halda því gangandi og afgreiða það með einhverjum hætti. Ég áskil mér samt þann rétt að hafa á því skoðun nú, eins og þegar fyrra frumvarpið var lagt fram, hvort ég telji að það sem fyrir þinginu liggi sé ásættanlegt og ég tilbúin að veita því brautargengi eður ei.

Ég er alls ekki sammála hv. formanni fjárlaganefndar um að þá fyrirvara, sem settir voru í frumvarpinu sem samþykkt var í ágúst þar sem talað var um að greiðslur á vöxtum og höfuðstól ættu að miðast við það að hagvöxtur væri 6%, megi núna gjaldfella með því að taka vextina út fyrir sviga og segja: Við munum alltaf borga vextina, alltaf, óháð því hvernig íslenskt efnahagslíf stendur. Ég er ekki sammála því að það sé einhver lítilfjörleg breyting á fyrirvörunum. Mér finnst hún stór, mér finnst hún mikil og mér finnst hún óásættanleg.