138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:45]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Það væri sannarlega ráð ef hæstv. fjármálaráðherra fengist til að koma í ræðustól og útskýra betur þessa fullyrðingu. En að sjálfsögðu eigum við ekki að láta undan hótunum. Ríki sem byrjar á því að láta undan hótunum og ætlar að nálgast málin þannig er að stíga fyrstu skrefin á mjög ógæfusamri ferð. Það hefur verið mjög undarlegt í upphafi þessa máls að hlusta á allar fullyrðingar stjórnarliða þess efnis að við eigum engan kost í stöðunni vegna þess að Bretar og Hollendingar hafa ekki viljað sætta sig við eitthvað sem við lögðum til. Þá er viðkvæðið gjarnan: Ja, við báðum um þetta, en þeir sögðu bara þvert nei og við því er ekkert að gera. Það er ekki nóg með að menn láti undan hótunum heldur virðast Bretar og Hollendingar geta bara sagt þvert nei við hverju sem við leggjum til. Það er vegna þess að við höfum í engu reynt að nýta samningsstöðuna. Við höfum ekki staðið í lappirnar. (Forseti hringir.)