138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:19]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að við ættum stöðugt að endurskoða vinnubrögð í þinginu. Hv. þingmaður kom inn á mun fleiri þætti. Ég ætla að sleppa því að tjá mig um skilning eða skilningsleysi einstakra þingmanna eða þingmanna sem heildar. Ég vil miklu frekar líta á það þannig að þingmenn hafi tækifæri til þess að tjá sig í ræðustól eða í nefndarálitum og greinargerðum og þess háttar. Það verður bara að meta menn eða meta málstað manna út frá því hvað kemur fram hjá þeim í ræðum og þeim skriflegu gögnum og álitum sem lögð eru fram. Það er bara þannig, hv. þingmaður.

Ef það eru eyður í málflutningi manna eða í þeim álitum sem fram koma er það auðvitað mikill galli og ekki gott, það gerir málstað viðkomandi þingmanna ekki góðan.

Í þriðja lagi vildi ég nefna það sem hv. þingmaður kom inn á og ég fór kannski ekki nægilega vel út í hér áðan, varðandi lögfræðilegar greinargerðir í þessum málum og mismun á stöðu manna í stjórn og stjórnarandstöðu o.s.frv. Ég minnist þess frá því að ég sat sem almennur nefndarmaður í efnahags- og viðskiptanefnd, eins og hún hét, á kjörtímabilinu 2003–2007 þegar við stóðum frammi fyrir stjórnarskrárspurningu. Hún varð til þess að máli var frestað milli þinga, milli ára meðan verið var að reyna að lappa upp á ákvæðið. Síðan þegar málið var tekið til afgreiðslu í nefndinni lá fyrir 50 blaðsíðna lögfræðiálit um stjórnskipulegan þátt þess og voru kallaðir til fleiri stjórnskipunarfræðingar (Forseti hringir.) til þess að ræða þetta mál. Þar var vissulega fyrir hendi vafi (Forseti hringir.) sem sennilega verður ekki skorið úr um nema fyrir dómstólum, (Forseti hringir.) en við lögðum metnað okkar í að rökstyðja þá niðurstöðu sem við komumst að í málinu.