138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[11:39]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil endilega hvetja hæstv. félagsmálaráðherra til að taka þátt í þessari umræðu þótt ég eigi ekki von á neinu merkilegu innleggi frá honum í þetta mál frekar en svo mörg önnur. (Gripið fram í.) En það er alveg rétt hjá hæstv. samgönguráðherra að gefin var út viljayfirlýsing hjá síðustu ríkisstjórn um að fara í samningaviðræður um þetta mál (Gripið fram í.) og reyna að leysa það á pólitískum vettvangi. (Gripið fram í: … með bundið fyrir augun.) En hæstv. ríkisstjórn hefur klúðrað tveimur samningaviðræðum og það er niðurstaða þeirra samningaviðræðna sem við ræðum hér í dag og höfum allar þessar athugasemdir við.

Það kristallast kannski helst í orðum fyrrverandi forustumanns hæstv. samgönguráðherra og hæstv. félagsmálaráðherra, hæstv. fyrrverandi utanríkisráðherra Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, þegar hún lýsti því þannig að við hefðum komið eins og kjölturakkar eða sakamenn til þessara samningaviðræðna. Það er einkunnin sem fyrrverandi forustumaður Samfylkingarinnar gefur hæstv. ríkisstjórn í þessum efnum og það eru þær niðurstöður sem við ræðum í dag. Við getum ekki annað en tekið undir með (Forseti hringir.) fyrrverandi hæstv. utanríkisráðherra, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur. (Gripið fram í: … um fundarstjórn forseta.)