138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:50]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta með dómstólana er einn þátturinn af því sem gerir þetta mál svo ömurlegt og hræðilegt fyrir íslenska þjóð, það að framkvæmdarvaldið skuli leggja til að við afsölum okkur dómsvaldi. Það er skýrt brot á stjórnarskrá. Að einhverjum íslenskum sendimanni hafi dottið í hug að skrifa undir það ákvæði að við værum ekki bær í dómsmálum okkar er saga til næsta bæjar. Þessir samningar ættu að vera í heimsfréttunum að þessu leyti. Þetta er með ólíkindum.

Ég get alveg svarað því játandi að ég lít svo á að ef Alþingi samþykkir þetta frumvarp sé framkvæmdarvaldið raunverulega að leggja til vantraust á íslensku dómstólana. Það má alveg túlka þetta á þann hátt fyrst þetta er lagt til í frumvarpinu. Við skulum bara tala íslensku. Það er þannig, því miður. Ég var á fundi fjárlaganefndar þegar þessi breski lögfræðingur tjáði sig um að Bretar og Hollendingar treystu ekki íslenskum dómstólum. (Forseti hringir.) Er það ekki okkar Íslendinga þá að standa með okkar dómstólum?