138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:28]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Það eru nokkur atriði sem ég ætla að koma inn á í ræðu minni núna. Tíminn sem við höfum til ráðstöfunar í hvert sinn er nokkuð takmarkaður, þannig að maður verður einhvern veginn eins og sumir hv. þingmenn hafa gert, að búta niður málflutninginn til að koma öllum þeim atriðum að sem mikilvæg eru í þessu sambandi. En áður en ég kem að aðalefni ræðu minnar, ætlaði ég að vitna aftur í grein eða ritdóm frá hv. þm. Ögmundi Jónassyni sem var að birtast í tímaritinu Þjóðmálum. Ég vísaði aðeins í þetta í umræðu um fundarstjórn forseta fyrr í dag og fékk fyrir það tiltal frá þáverandi hæstv. forseta og fór því ekki lengra í þeirri umræðu, en ég tel að það sem þarna kemur fram varði málið með þeim hætti að nauðsynlegt sé að það komi fram við þessa umræðu.

Málið er sem sagt það að hv. þm. Ögmundur Jónasson skrifar dóm um bók eftir Styrmi Gunnarsson, Umsátrið, í tímaritið Þjóðmál, sem kom út fyrr í vikunni. Svo vísað sé í texta ritdómsins er hv. þm. Ögmundur Jónasson að greina frá því að hann hafi sumarið 2008 farið á fund þáverandi forsætisráðherra með sendinefnd breskra þingmanna, vina Íslands, og síðan segir hv. þingmaður, og ég vitna beint, með leyfi forseta:

„Ég annaðist milligöngu um komu þeirra, sá um að þeir hittu íslenska ráðamenn. Þarna voru innanbúðarmenn í breskri pólitík og stjórnsýslu, menn áhugasamir um að hjálpa okkur og veita okkur ráðgjöf. Það bíður seinni tíma að tíunda það ótrúlega meðvitundarleysi sem íslensk stjórnvöld hafa, allt fram á þennan dag, sýnt við að virkja tengsl af þessu tagi. Engin alvörutilraun hefur verið gerð til að notfæra þá velvild sem er til staðar gagnvart Íslandi.“

Síðan greinir hv. þingmaður frá því að á fundum, sem hann hefur átt þess kost að sitja sem forustumaður í verkalýðshreyfingunni og í viðtölum við erlenda fjölmiðla, hafi hann orðið þess var að andrúmsloftið hafi lagast mikið gagnvart Íslandi við að skýra málin, en síðan kemur fram í greininni gagnrýni af hálfu þingmannsins á það að bæði fyrrverandi og núverandi ríkisstjórn hafi skilgreint Icesave-deilurnar sem bankatæknilegt mál. Þegar málið hafi borið á góma í pólitískum samskiptum hafi verið hvíslast á um það í bakherbergjum en með slíkum vinnubrögðum sé málstaður Íslands dauðadæmdur að mati þingmannsins. Síðan segir hv. þingmaður:

„Völdin og ofbeldið sem Íslendingar hafa verið beittir hefðu aldrei þolað dagsljósið. Þetta er mergurinn málsins sem íslensk stjórnvöld hafa ekki skilið. Það gera hins vegar andstæðingar okkar enda eru það þeir sem krefjast leyndar. Og við hlýðum. Ég leyfi mér að fullyrða að almenningur á Norðurlöndum hefði aldrei liðið ríkisstjórnum sínum að koma fram gagnvart Íslandi eins og þær hafa gert — sem handbendi lánardrottna okkar og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins — ef framkomu þeirra hefðu verið gerð skil í fjölmiðlum.“

Hv. þm. Ögmundur Jónasson, sem átti sæti í ríkisstjórn frá 1. febrúar og til að ég held 1. október, lýsir stöðunni með þessum hætti. Hann talar um leynd, hann talar um að íslensk stjórnvöld hafi orðið við kröfum andstæðinga okkar, eins og hv. þingmaður tekur til orða, um leynd á ýmsum samskiptum. Og segir síðan „að almenningur á Norðurlöndum hefði aldrei liðið ríkisstjórnum sínum að koma fram gagnvart Íslandi eins og þær hafa gert — sem handbendi lánardrottna okkar og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins — ef framkomu þeirra hefðu verið gerð skil í fjölmiðlum“.

Þetta er mjög athyglisvert vegna þeirrar umræðu sem fór fram hér fyrr í dag um einmitt það hverjir það eru sem hafa beitt okkur þvingunum. Hefur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn gert það? Hafa ríkisstjórnir Norðurlandanna gert það? Þessar spurningar liggja allar í loftinu en hefur ekki verið svarað hreinskilnislega. Ráða hefur mátt af orðum hæstv. fjármálaráðherra, hæstv. forsætisráðherra og hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra að ekkert sé að marka yfirlýsingar frá talsmönnum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í þessum efnum, ekkert að marka Dominique Strauss-Kahn, ekkert að marka Mark Flanagan. Bæði Dominique Strauss-Kahn og Mark Flanagan hafa opinberlega látið hafa eftir sér að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi ekki sett nein skilyrði. Hæstv. ráðherrar, alla vega þrír hæstv. ráðherrar í ríkisstjórn Íslands, hafa gefið lítið fyrir þær yfirlýsingar og sagt nánast eins skýrt og hægt er að segja það að þessar fullyrðingar þeirra séu ósannar. Þeir hafa með öðrum orðum haldið því fram, íslensku ráðherrarnir, að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi verið notaður eða sjóðurinn hafi beitt sér með því að setja Íslandi skilyrði í þessu sambandi. Íslensku ráðherrarnir hafa sagt það skýrt að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi sett slík skilyrði, beitt sér með þessum hætti, en á sama tíma tala talsmenn sjóðsins á annan veg.

Ég segi fyrir mig, þó að ég viti auðvitað ekki allan sannleikann í þessu máli, alls ekki, og tel mig ekki í aðstöðu til að skera úr um þetta, að ég rengi ekkert endilega ummæli íslensku ráðherranna, það má enginn túlka orð mín þannig, en það er alveg gríðarlega mikilvægt þegar við eigum í viðkvæmum samskiptum við alþjóðastofnanir, eins og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og við ríkisstjórnir landa sem við höfum talið til vinaþjóða okkar, að svona hlutir liggi skýrt fyrir. Að það liggi skýrt fyrir, sérstaklega þegar við erum að tala um jafngríðarlega mikilvægt hagsmunamál og hér er á ferðinni. Hér eru svo miklir þjóðarhagsmunir á ferðinni að Alþingi Íslendinga og íslenskur almenningur á rétt á því að upplýsingar séu uppi á borðum, Alþingi á rétt á því, þingmenn eiga rétt á því. Ráðherrarnir starfa í okkar umboði, hæstv. ráðherrar, ríkisstjórnin starfar í okkar umboði, umboði þingsins. Og ef ráðherrarnir treysta sér ekki til að upplýsa þingið um svona mikilvæg atriði sem varða gríðarlega mikilvægar ákvarðanir í þinginu, hlýtur þingið að íhuga stöðu sína gagnvart þessum háu herrum sem starfa í okkar umboði. Við hljótum að endurskoða afstöðu okkar til þess og ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því að það séu ekki einhverjir hv. þingmenn innan ríkisstjórnarflokkanna sem hugsa á sama hátt og ég í þessum efnum. Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því.

Við sjáum reyndar að hv. þm. Ögmundur Jónasson lætur ekki bjóða sér hvað sem er. (Gripið fram í: Nei.) Við sjáum það. (Gripið fram í: Já.) Við sjáum að hv. þm. Ögmundur Jónasson, sem reyndar því miður hefur ekki tekið þátt í þessari umræðu — ég vonast nú til þess að úr því verði bætt áður en henni lýkur — en hann hefur hins vegar utan þessa salar talað skýrt, eins og hann gerir mjög skýrt í fyrrnefndri grein í tímaritinu Þjóðmálum. Og auðvitað er hann að gagnrýna fyrri ríkisstjórn en hann er ekki síður að gagnrýna þá ríkisstjórn sem verið hefur við völd í tíu mánuði, rúma tíu mánuði, og hann átti sæti í lengst af þeim tíma. Hann er að beina gagnrýni sinni með mjög hörðum hætti að þeirri ríkisstjórn.

Hann vísar til þess að ýmislegt sé í þessu sem eigi eftir að koma upp á yfirborðið. Auðvitað er eðlilegt að kallað sé eftir því hvaða upplýsingar það eru, sérstaklega þegar þeirri tækni er beitt í umræðunni að reyna að hræða þingið og reyna að hræða þjóðina til að fallast á þetta mál, með loðnum ummælum um einhverjar yfirvofandi ógnir, um yfirvofandi ísöld og frostavetur, eins og hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir vísaði til áðan. Það er verið að hóta ýmsu. Það er verið að reyna að afla málinu stuðnings með því að vera með einhverjar óljósar tilvísanir til yfirvofandi ógæfu ef þingið afgreiði ekki málið ekki hratt og vel. Og auðvitað gera þá þingmenn kröfu um að talað sé skýrt í þeim efnum, auðvitað hljótum við að gera það þegar verið er að taka svona afdrifaríkar ákvarðanir. Það er ekki hægt að taka afdrifaríkar ákvarðanir undir einhverri pressu vegna þess að ráðamenn íslensku þjóðarinnar tala í hálfkveðnum vísum í þessum efnum, gefa hitt og þetta í skyn en vilja ekki segja hvað þeir eiga við. Það er algjörlega nauðsynlegt að talað sé skýrt í þessum efnum. Ég vona að hv. þm. Guðbjartur Hannesson sé tilbúinn að gera það (Forseti hringir.) á eftir.