138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

rannsókn samgönguslysa.

279. mál
[22:28]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka þeim þremur þingmönnum sem tóku til máls um frumvarpið fyrir það sem þeir lögðu til umræðunnar. Það kom fram hjá a.m.k. tveimur þeirra að það sé tvenns konar tilgangur, auðvitað hagræðing og síðan er annað meginmarkmið meiri og betri fagleg vinna og samræming, ein lög um rannsókn samgönguslysa í staðinn fyrir þrenn lög eins og ég fór í gegnum áðan.

Þá er það auðvitað líka svar við spurningu hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar um það hvort ekki hafi verið leitað til stofnananna um sparnað. Jú, það hefur verið gert fyrir næsta ár. Samgönguráðuneytinu og öllum stofnunum þess er gert að spara um 10% og það hefur verið gert með ákvörðun. Þannig er það tekið niður.

Svo ég svari hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni líka því sem hann fjallar um formanninn í 5. gr. ítreka ég það sem þar er sagt og þá hugsun sem er í greininni, að formaðurinn er eins og nokkurs konar forstjóri. Auðvitað verður þetta samt tekið til umfjöllunar í hv. samgöngunefnd eins og hvað annað vegna þess að ég ætlast til þess að þar verði góð og vönduð umfjöllun eins og auðvitað er í öllum málum. Nefndin mun fara í gegnum það og kalla til aðila og kalla eftir umsögnum eins og gengur og gerist.

Eins og hér hefur komið fram, og ég tók eftir að hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson var mjög ánægður með, hefur þetta verið tvíkynnt á netinu. Fjölmargar athugasemdir hafa komið inn og góðar tillögur sem til margra hverra hefur verið tekið tillit. Eins og ég sagði var málið síðan birt aftur áður en það var gert að frumvarpi sem ég geri þá að mínu og flyt inn til Alþingis og til hv. samgöngunefndar til að fara í vandaða meðferð. Það er mjög mikilvægt að það sé gert vel eins og hv. þm. Jón Gunnarsson og fleiri töluðu um, það verði farið yfir þetta faglega og við séum ekki að spilla neinu hvað varðar rannsókn samgönguslysa. Við ætlum okkur að efla málið, það er meginmarkmið þessa frumvarps.

Rannsókn flugslysa er í mjög alþjóðlegu umhverfi og unnin af mjög mikilli fagmennsku. Það er athyglisvert og það er munur á því gagnvart rannsókn sjóslysa og svo umferðarslysa að auðvitað er bara gott ef þetta samspil getur orðið meira og starfsmennirnir og aðrir fá faglegan stuðning hver frá öðrum.

Vegna þess sem hv. þingmaður sagði um athugasemdir frá FÍA vil ég geta þess að auk þess að hafa tvíkynnt þetta á netinu hafa fulltrúar FÍA komið til fundar í ráðuneytið og átt fundi með ráðuneytisstjóra og starfsmönnum ráðuneytisins til að fara yfir þau atriði, m.a. nú á lokastigum. Þar var tekið tillit til þess. Það er ekki verið að gera neitt í þessu frumvarpi sem gerir það að verkum að t.d. flugmenn eða aðrir sem gefa upplýsingar sakfelli sjálfa sig í leiðinni. Það er ekki verið að gera neitt svoleiðis og ekki ætlast til þess.

Þá kem ég að því sem tveir þingmenn hafa eðlilega gert dálítið mikið úr, starfi sjóslysanefndar í Stykkishólmi. Ég ítreka það sem ég sagði í lok flutningsræðu minnar, forstöðumönnum verður boðið starf og öðrum starfsmönnum og ef það hefur ekki komið nógu skýrt fram segi ég aftur að ekki stendur til, að mínu mati, að taka þessa stofnun og flytja hana út á land. Þó að ég sé unnandi þess að opinber störf séu byggð upp úti á landi tel ég betra að gera það þegar nýjar stofnanir verða til eða ný atriði og nefndi sem dæmi verkefni til sýslumannsins í Bolungarvík sem ég stóð fyrir að senda þangað. Það er sem sagt eftirlit með óskoðuðum ökutækjum.

Flest samgönguslysin verða á þessu svæði hér og ég veit ekki einu sinni hvar starfsmenn flugslysanefndar eða umferðarslysanefndar búa. Mér er eiginlega alveg sama um það. Það er sama auðvitað með þá sem búa í Stykkishólmi og sinna sínu góða starfi þar, þeir geta að sjálfsögðu áfram búið og starfað í Stykkishólmi, það er alveg klárt.

Það má segja að þetta séu störf án staðsetningar, alveg eins og það er ekkert verið að spekúlera í því hvort einhverjir menn í flugslysanefnd búi í Reykjanesbæ eða Reykjavík. Þannig er það bara og ég er alveg sannfærður um að með því að setja þetta saman, sem er auðvitað aðaltilgangurinn, eins og hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson gat um, náist meiri og betri fagleg vinna. Eins og hann talaði um á ekki að útiloka sameiningu þessara nefnda. Tilgangurinn er hér og þess vegna lýk ég máli mínu með því, virðulegi forseti, að segja að ég held að þetta sé ágætismál. Það fer núna sinn gang til samgöngunefndar og ég ítreka það sem ég sagði áðan, ég veit að samgöngunefnd mun fara vel í gegnum þetta mál og kalla eftir umsögnum og fá menn til sín á fundi nefndarinnar. Okkur liggur ekkert á þannig lagað, það er ekkert verið að pressa þetta neitt fyrir jól eða svoleiðis, síðan verður þetta bara unnið faglega eftir jól.

Í lokin ítreka ég enn og aftur þakkir mínar til þeirra þingmanna sem hafa tekið til máls í þessu vegna þess að þeir láta sig umferðaröryggismál miklu varða hvað varðar samgönguslys og annað.