138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ráðstafanir í skattamálum.

239. mál
[15:34]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar til að blanda mér í umræðuna um þrepaskipt skattkerfi og vil eiginlega fá að heyra viðbrögð hv. þm. Tryggva Þórs Herbertssonar. Hann komst ágætlega að orði áðan og sagði að við ættum ekki að láta góða kreppu fram hjá okkur fara. Þær hugmyndir sem uppi eru um þrepaskipt tekjuskattskerfi eru einmitt gott dæmi um aðgerðir sem gott er að grípa til vegna þess að eins og fræðimenn hafa sýnt fram á bjuggum við kannski við hvað hægri sinnaðasta skattkerfið af þeim öllum. Það eru til efnuð ríki innan OECD sem búa við þrepaskipt skattkerfi og meira að segja í Bandaríkjunum eru sex tekjuskattsþrep fyrir einstaklinga.

Fyrir mitt leyti hefur skattlagning séreignarsparnaðar alls ekki verið tekin út af borðinu og ég sé fyrir mér að ef meiri hluti reynist fyrir sé það verkefni efnahags- og skattanefndar að útfæra nánar hvernig við getum aukið tekjur ríkissjóðs af skattlagningu séreignarsparnaðar og þar er ég fylgjandi þeim hugmyndum sem fram hafa komið. Hins vegar hefur það kannski skemmt eilítið fyrir umræðunni að við megum ekki gleyma því að aðlögunarþörf ríkisins er mikil og besta leiðin til að mæta ástandinu er að auka tekjurnar og minnka gjöldin og þar af leiðandi er blönduð leið hagfelld.

Sú umræða sem hefur komið frá Sjálfstæðisflokknum um skattlagningu séreignarsparnaðar með einskiptisaðgerð hefur að einhverju leyti kannski skemmt fyrir þeirri hugmynd að skattleggja séreignarsparnaðinn og styrkja þá tekjustofna ríkissjóðs um lengri tíma.