138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

svör við fyrirspurnum og fyrirkomulag umræðna.

[12:41]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Frú forseti. Erindi mitt er svipað og hv. þm. Eyglóar Harðardóttur þar sem ég á inniliggjandi fyrirspurn til samgönguráðherra um gjaldskrár og ferðatíðni í Landeyjahöfn sem ekki hefur bólað á svari við.

Hins vegar langar mig að beina því til forseta að það er erfitt að hefja umræðu um næsta dagskrármál, þ.e. Icesave-málið, áður en við fáum að vita hvort stjórnarmeirihlutinn ætlar að standa við það samkomulag sem undirritað var fyrir helgi. (Gripið fram í.) Miðað við þær upplýsingar sem komu fram í máli hv. þm. Höskuldar Þórhallssonar áðan er algjörlega ljóst að það er mikill efi uppi um það. Ég tel, frú forseti, að umræðan verði ómarkviss og sé í rauninni ástæðulaust að halda áfram fundi, réttara væri að fresta fundi aðeins lengur eða þangað til við heyrum hvað gerist á hinum merka fundi þingflokksformanna með virðulegum forseta Alþingis.