138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

svör við fyrirspurnum og fyrirkomulag umræðna.

[12:48]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég er sannfærð um að það er eðlileg ósk, af hálfu okkar sem höfum verið að kveðja okkur hljóðs undir liðnum um fundarstjórn forseta, að gert verði hlé á þingstörfum þar til þingflokksformannafundi er lokið. Búið er að upplýsa hver niðurstaða þess fundar er því það skiptir máli varðandi framhald málsins að ekki sé verið að hleypa þingstörfum í uppnám. Samkomulag náðist fyrir helgi og þá verður fjárlaganefnd einfaldlega að vinna eftir því samkomulagi en ekki eins og upplýst hefur verið að menn ætli einfaldlega ekki að virða það sem flokksformönnum fór á milli.

Ég fer þess á leit við hæstv. forseta að gert verði hlé á störfum þingsins þar til þessi mál eru komin á hreint. Ég veit að hugur þingforseta er stór og mikill og hann mun taka tillit til þessara athugasemda okkar.