138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

atvinnuleysistryggingar o.fl.

273. mál
[15:02]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, lögum nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga, og lögum nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum.

Meginefni frumvarpsins felst í þeim breytingum sem fyrirhugað er að gera á lögum um atvinnuleysistryggingar vegna framkvæmdar á greiðslu atvinnuleysisbóta í ljósi þeirrar reynslu sem fengist hefur af atvinnuleysistryggingakerfinu frá því að atvinnuleysi tók að aukast verulega undir lok síðasta árs. Markmið breytinganna er að koma á meiri festu við framkvæmdina til að tryggja sem besta nýtingu kerfisins í þágu þeirra sem á því þurfa að halda og draga úr hættu á misnotkun. Breytingunum er einnig ætlað að sníða af ýmsa vankanta í lögum um atvinnuleysistryggingakerfið, auk þess að mæta hluta af markmiðum um samdrátt í útgjöldum ríkissjóðs í samræmi við frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2010.

Atvinnuleysi meðal ungs fólks er alvarlegt vandamál sem við verðum að takast á við af mikilli alvöru. Að þessu er unnið í félags- og tryggingamálaráðuneytinu og við áformum að ráðast í sérstakar aðgerðir til að stuðla að virkni ungs fólks, hvetja það til náms eða tryggja því önnur úrræði og uppbyggileg verkefni. Ráðuneytið hefur áætlað að til að takast á við þetta þurfi að lágmarki 1.300 millj. kr. á ársgrundvelli. Vandinn er stór því að alls eru um 2.600 ungmenni á aldrinum 16–24 ára án atvinnu og við vitum að mörg þeirra eiga á hættu að verða smám saman óvirkir þiggjendur í stað virkra þátttakenda í samfélaginu verði ekkert að gert. Reynsla nágrannaríkja okkar af afleiðingum efnahagskreppu er víti til að varast. Því lengur sem ungt fólk er án atvinnu eykst hættan á því að atvinnuleysið leiði til örorku og þess að fólk verði varanlega utan vinnumarkaðar. Þetta er ekki einungis atvinnuleysisvandi, virðulegi forseti, heldur líka menntavandi. Við sjáum núna þegar herðir að á vinnumarkaðnum afleiðingar þeirrar staðreyndar að á Íslandi höfum við stærra hlutfall á vinnumarkaði af þeim sem einungis hafa lokið grunnskólamenntun en í nokkru öðru Norður-Evrópuríki. 35% þátttakenda á vinnumarkaði hafa einungis grunnskólamenntun að baki, í hópi atvinnulausra er þetta hlutfall 50% og hópi ungra atvinnulausra er hlutfallið 77,4%.

Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir 750 millj. kr. sparnaði í atvinnuleysistryggingakerfinu. Við áætlum að þær aðgerðir sem felast í því frumvarpi sem hér er lagt fram muni leiða til sparnaðar sem varlega áætlaður er um 1.500 millj. kr. Mismunurinn, 750 millj. kr., verður nýttur að fullu og öllu til að ráðast í átaksverkefni til að aðstoða ungt, atvinnulaust fólk sem og langtímaatvinnulausa til menntunar, virkni og þátttöku í samfélaginu. Verkefnið verður unnið hjá Vinnumálastofnun í samstarfi við framhaldsskóla, símenntunarmiðstöðvar, stofnanir og frjáls félagasamtök.

Eins og ég sagði þarf að lágmarki 1.300 millj. kr. á ársgrundvelli til að sinna nauðsynlegum aðgerðum vegna ungs fólks án atvinnu. Fjármögnun þessa á fyrri hluta ársins er tryggð með sparnaði sem hlýst af þeim aðgerðum sem boðaðar eru í frumvarpinu sem hér er til umfjöllunar. Vonir standa til að átakið skili þeim árangri strax á fyrri hluta ársins að áunninn sparnaður og minnkandi atvinnuleysi skapi rúm fyrir fjármögnun þess á seinni hluta ársins án hækkunar tryggingagjalds. Gangi það ekki eftir verður fjárþörf vegna þessa mikilvæga verkefnis endurmetin á miðju næsta ári.

Undan þessu verkefni, að takast á við þann mikla samfélagsvanda sem er langtímaatvinnuleysi ungs fólks, verður ekki vikist og ég legg gríðarlega áherslu á að við mætum vanda þessa unga fólks og styðjum það til aukinnar virkni, mennta og vinnu, allt eftir þörfum hvers og eins.

Allmiklar breytingar voru gerðar á atvinnuleysistryggingakerfinu sumarið 2006 í kjölfar ítarlegrar endurskoðunar á löggjöf um atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir. Markmið endurskoðunarinnar var að bæta stöðu atvinnulausra, efla vinnumarkaðsaðgerðir, auka skilvirkni kerfisins og veita sem flestum tækifæri til virkrar þátttöku á vinnumarkaði. Það reyndi lítið á nýtt kerfi atvinnuleysistrygginga framan af, enda mikið framboð atvinnu, allt til hausts á síðasta ári þegar atvinnuleysi jókst hröðum skrefum og svo mjög að tala mátti um holskeflu vegna fjöldauppsagna fljótlega eftir bankahrunið. Í apríl á þessu ári náði atvinnuleysið hámarki þegar það mældist 9,1%. Það dró úr því þegar leið á sumarið en nú eykst það á nýjan leik og reiknað er með að svo verði áfram næstu 2–3 mánuði. Það er þó bót í máli að á síðustu mánuðum hefur heldur dregið úr spám um hámark atvinnuleysisins.

Álag á atvinnuleysistryggingakerfið hefur af þessari ástæðu stóraukist og útgjöldin að sama skapi. Þörf fyrir fjölbreyttar vinnumarkaðsaðgerðir er brýn og vaxandi því að innviðum samfélagsins stafar veruleg ógn af áhrifum atvinnuleysis og þá einkum langtímaatvinnuleysis sem leggst afar þungt á þá sem fyrir því verða. Við verðum að taka alvarlega reynslu nágrannaríkja okkar og beita öllum hugsanlegum aðgerðum til að fyrirbyggja varanlegan skaða vegna langtímaatvinnuleysis og að því róum við öllum árum. Okkur er þröngur stakkur skorinn því að ríkið þarf alls staðar að spara útgjöld sín, hagræða og skera niður. Þetta er auðvitað ekki draumastaða í málaflokki þar sem fjárþörfin eykst því meira sem efnahagsástandið er verra.

Við teljum óhjákvæmilegt við þessar aðstæður að við veltum við hverri einustu krónu með það að markmiði að nýta fjármuni sem best. Við þurfum að tryggja að engar greiðslur fari út úr atvinnuleysistryggingakerfinu sem ekki eiga rétt á sér. Misnotkun á kerfinu á ekki að eiga sér stað og við þurfum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að koma í veg fyrir slíkt. Við þurfum að hafa markmið atvinnuleysistryggingakerfisins í hávegum og megum aldrei missa sjónar á þeim. Atvinnuleysistryggingakerfið snýst um einstaklinga og framfærslu þeirra. Markmiðið er ávallt að veita þeim aðstoð sem verða fyrir atvinnumissi með það fyrir augum að þeir komist sem fyrst inn á vinnumarkaðinn á nýjan leik. Ef atvinnuleysi er mikið og viðvarandi þarf atvinnuleysistryggingakerfið að stuðla að virkni þeirra sem eru án atvinnu með uppbyggilegum verkefnum, námi eða starfsþjálfun sem líklegt er að styrki stöðu fólks á vinnumarkaði þegar framboð atvinnu eykst á ný.

Við þurfum jafnframt að gera stjórnun og rekstur atvinnuleysistryggingakerfisins eins einfaldan og kostur er svo okkur gangi sem best við að hvetja fólk til virkni og vinnu.

Virðulegi forseti. Ég ætla nú að rekja helstu efnisatriði frumvarpsins sem ég mæli hér fyrir og hvaða árangri þeim breytingum er ætlað að skila.

Lagt er til að gildistími bráðabirgðaákvæðis um hlutfallslegar atvinnuleysisbætur á móti skertu starfshlutfalli launafólks verði framlengdur til 30. júní 2010. Þetta ákvæði þykir hafa sannað gildi sitt þar sem ætla má að fjöldi fólks hafi haldið a.m.k. 50% starfshlutfalli í stað þess að missa vinnuna að fullu. Þetta er markmið ákvæðis um hlutabætur, að koma sem kostur er í veg fyrir uppsagnir. Því er hins ekki ætlað að koma í veg fyrir óhjákvæmilegar hagræðingaraðgerðir stofnana eða fyrirtækja. Í lok október fengu um 1.580 manns greiddar hlutabætur samkvæmt þessu ákvæði. Sú breyting er lögð til á þessu ákvæði í frumvarpinu að greiðsla hlutabóta verður bundin við að lágmarki 20% skerðingu starfshlutfalls í stað 10% áður. Jafnframt er lagt til að samanlagðar tekjur fyrir hlutastarf og atvinnuleysisbætur verði aldrei hærri en 521.318 kr. á mánuði. Miðað er við að hlutabætur feli alltaf í sér tímabundna breytingu á ráðningarsamningi og vari ekki lengur en þrjá mánuði í senn. Það er mikilvægt að við undirstrikum það að hlutabótaúrræðinu er ekki ætlað að koma í veg fyrir nauðsynlegar hagræðingaraðgerðir eða vera til langframa valkostur við endurskipulagningu fyrirtækja eða stofnana, heldur er því fyrst og fremst ætlað að verja hag starfsfólks til skemmri tíma litið.

Öllum þessum breytingum er samhliða auknu eftirliti einnig ætlað að hindra að atvinnurekendur freistist til að hagræða aðstæðum þannig að starfsmenn fái greiddar hærri hlutabætur en þeim ber miðað við raunverulegt starfshlutfall og vinnuframlag til atvinnurekandans. Það er líka markmið að undirstrika hið tímabundna eðli hlutabótanna, enda engum greiði gerður að vera til langframa bundinn í lægra starfshlutfall og eiga ekki þann raunverulega valkost að auka starfshlutfall sitt þegar hagur vænkast.

Bráðabirgðaákvæði um rétt sjálfstætt starfandi einstaklinga til hlutfallslegra atvinnuleysisbóta verður einnig framlengt til 30. júní á næsta ári samkvæmt frumvarpinu. Hér er hins vegar miðað við að hver og einn geti aðeins nýtt sér úrræðið í þrjá mánuði sem þykir hæfilegur tími fyrir viðkomandi til að bregðast við tímabundnum samdrætti í rekstri og gera viðeigandi ráðstafanir. Þessi breyting er að okkar áliti nauðsynleg miðað við fengna reynslu. Erfitt hefur reynst í framkvæmd að meta raunverulegan samdrátt í rekstri sjálfstætt starfandi einstaklinga og hefur það skapað verulega hættu á misnotkun þessa ákvæðis.

Jafnframt er í frumvarpinu lagt til að námsmenn sem þegar hafa skráð sig til náms á næstu önn geti ekki talist tryggðir innan atvinnuleysistryggingakerfisins. Er þá einkum horft til þess að mjög ríkar kröfur eru gerðar til atvinnuleitenda um að sinna virkri atvinnuleit og vera reiðubúnir að taka starfi hvar sem er á landinu með litlum fyrirvara. Þessi krafa samrýmist illa stuttum námsleyfum námsmanna, auk þess sem aðeins tímabundin störf koma til álita hjá þeim. Til að koma til móts við námsmenn er aftur á móti lagt til að réttur þeirra til að geyma bótarétt samkvæmt lögunum verði lengdur úr 36 mánuðum í 72. Námsmenn sem öðluðust rétt í atvinnuleysistryggingakerfinu með atvinnuþátttöku áður en þeir hófu nám geta þar með lokið allt að sex ára námi og talist tryggðir innan atvinnuleysistryggingakerfisins að því loknu.

Það er einnig rétt að minna á að í fyrrahaust var í ljósi fyrirætlana um að afnema rétt námsmanna til sumarbóta ákveðið að hækka grunnframfærslu námslána í Lánasjóði íslenskra námsmanna um 20%.

Eftirlit, aðhald og eftirfylgni Vinnumálastofnunar með atvinnuleitendum verður aukið samkvæmt frumvarpinu. Gerð verður skýr krafa um að þeir sem tryggðir eru samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar skuli hafa reglulegt samband við stofnunina eftir að umsóknir þeirra um atvinnuleysisbætur hafa verið samþykktar. Þeim verður einnig gert skylt að tilkynna Vinnumálastofnun með eins dags fyrirvara um tilfallandi vinnu sem þeir taka á þeim tíma sem þeir fá greiddar atvinnuleysisbætur.

Tilgangur þessa er þríþættur. Í fyrsta lagi verður að tryggja að atvinnuleitendur uppfylli kröfu um að sinna virkri atvinnuleit sem er algjört skilyrði fyrir réttinum til atvinnuleysisbóta. Í öðru lagi er mikilvægt að Vinnumálastofnun geti fylgst reglulega með aðstæðum þeirra sem eru án atvinnu til að veita í tíma aukinn stuðning og úrræði því að reynslan sýnir að oft eykst þörf fyrir ýmiss konar stuðning við atvinnuleitendur eftir því sem atvinnuleitin dregst á langinn. Í þriðja lagi er þessum aðgerðum ætlað að auka möguleika Vinnumálastofnunar á nauðsynlegu eftirliti til að fyrirbyggja misnotkun innan kerfisins, eins og t.d. að koma í veg fyrir að fólk geti starfað á vinnumarkaði samhliða bótagreiðslum eins og virðast hafa verið dæmi um. Í sama tilgangi er lagt til að Vinnumálastofnun verði heimilt að boða til sín með skömmum fyrirvara þá sem fá greiddar atvinnuleysisbætur til að kanna hvort breytingar hafi orðið á högum þeirra sem hafa áhrif á rétt þeirra til bóta.

Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar sem ætlað er að auðvelda Vinnumálastofnun innheimtu ofgreiddra atvinnuleysisbóta. Meðal annars er gert ráð fyrir að ofgreiddar bætur samkvæmt ákvörðunum stofnunarinnar og úrskurðarnefndar um þessi efni verði aðfararhæfar. Ef ákvörðun Vinnumálastofnunar er kærð til úrskurðarnefndarinnar frestast aðför þar til endanleg stjórnsýsluákvörðun liggur fyrir. Auk þessa er lagt til að Vinnumálastofnun fái heimild til að halda eftir greiðslu atvinnuleysisbóta í allt að einn mánuð hafi stofnunin rökstuddan grun um að hlutaðeigandi uppfylli ekki lengur skilyrði laganna eða hafi þegar fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Vinnumálastofnun eru settar þröngar skorður við framkvæmd þessarar heimildar samkvæmt frumvarpinu og tekið skal fram að henni ber að greiða viðkomandi vexti af fjárhæð sem haldið hefur verið eftir leiði athugun í ljós að hann átti rétt á greiðslunni að hluta eða öllu leyti.

Loks eru lögð til strangari ákvæði um biðtíma og viðurlög þegar þeir sem teljast tryggðir samkvæmt lögunum hafa sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna, átt sjálfir sök á því að missa starf sitt, hætt námi án gildra ástæðna, hafnað starfi eða atvinnuviðtali eða hafnað þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum. Ekki eru lagðar til efnisbreytingar á biðtíma eða viðurlögum við fyrsta brot, en þegar við annað brot verður viðkomandi ekki talinn eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hann hefur starfað í a.m.k. sex mánuði á innlendum vinnumarkaði. Sama gildir láti fólk hjá líða að veita upplýsingar eða tilkynna um breytingar á högum sínum sem geta haft áhrif á rétt þess innan atvinnuleysistryggingakerfisins.

Gerðar eru tillögur um nánari lýsingar á því við hvaða háttsemi er átt þegar litið er svo á að atvinnuleysisbóta hafi verið aflað með sviksamlegum hætti. Þegar um slíkt er að ræða er gert ráð fyrir að viðkomandi öðlist ekki aftur rétt til bóta fyrr en hann hefur starfað í a.m.k. eitt ár á innlendum vinnumarkaði. Miðað er við að Vinnumálastofnun taki ákvarðanir um viðurlög en þetta kemur þó ekki í veg fyrir að grunur um stórfellda misnotkun kunni að verða kærður til lögreglu. Auk þessa er lagt til að álag á ofgreiddar atvinnuleysisbætur verði hækkað úr 15% í 30%.

Fyrirhugaðar breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar sem ég hef lýst hér kalla á eflda starfsemi Vinnumálastofnunar til að auka þjónustu við atvinnulaust fólk, bæta eftirfylgni með vinnumarkaðsaðgerðum og efla eftirlit með framkvæmd laganna.

Besta leiðin til að komast hjá misnotkun á atvinnuleysistryggingakerfinu er að vinna vel í virkum vinnumarkaðsaðgerðum og hafa reglulega samband við það fólk sem glímir við atvinnuleysi. Þannig kemst óhjákvæmilega alltaf upp um þá fáu sem kjósa að svindla á kerfinu.

Virðulegi forseti. Auk þeirra breytinga sem að framan eru taldar er hér lögð til breyting á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga sem heimilar sveitarstjórnum að setja reglur um skilyrði fyrir fjárhagsaðstoð, svo sem um virkni, virka atvinnuleit eða þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum. Ástæða þessarar greinar er sú að Vinnumálastofnun er samkvæmt lögum falið að sjá fyrir virkum vinnumarkaðsaðgerðum, jafnt fyrir þá sem hafa réttindi í atvinnuleysistryggingakerfinu sem og þá sem ekki njóta réttinda innan kerfisins. Og þar af leiðandi er mikilvægt að sveitarstjórnir hafi svigrúm til að skilyrða fjárhagsaðstoð, virkni, atvinnuleit eða þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum. Ég tel þessa heimild mikilvæga. Hér á það sama við og ég hef rætt varðandi vanda ungs fólks án atvinnu. Samfélagið má ekki láta fólk afskiptalaust, heldur verðum við að beita öllum ráðum til að halda því virku. Við leggjum síaukna áherslu á virkni í öllum framfærslukerfum hins opinbera og horfum til þess að auka mjög virkniúrræði í örorkukerfinu svo dæmi sé tekið. Það eru mannréttindi fólks að fá að taka þátt í virkniaðgerðum, það eru mannréttindi að fá að vera hluti af samfélaginu.

Auk þessa er lögð til sú breyting á lögum um fæðingar- og foreldraorlof að úrskurðir úrskurðarnefndar um fæðingar- og foreldraorlof um endurkröfu ofgreiddra greiðslna verði aðfararhæfir og sömuleiðis ákvarðanir Vinnumálastofnunar um endurkröfu ofgreiddra greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði. Ef lögð er fram stjórnsýslukæra vegna ákvörðunar Vinnumálastofnunar frestar það aðför.

Virðulegi forseti. Ég hef nú rakið helstu efnisatriði frumvarpsins, ástæður fyrir boðuðum breytingum og hvað þær muni fela í sér. Eins og ég sagði í upphafi er okkur þröngur stakkur skorinn við núverandi aðhaldsstig í ríkisrekstri. Atvinnuleysistryggingakerfið er undir gríðarlegu álagi og krefst mikilla útgjalda á sama tíma og staða ríkissjóðs er slík að krafist er ýtrasta aðhalds og sparnaðar. Það skiptir öllu máli að nýta það takmarkaða fjármagn sem við höfum til ráðstöfunar þannig að það komi sem flestum að sem mestu gagni. Við verðum að lágmarka skaða samfélagsins af þessu ástandi og sjá til þess að þeir sem verða fyrir barðinu á atvinnuleysi, einkum langvarandi atvinnuleysi, fái allan þann stuðning og aðstoð sem hægt er að veita og getur fyrirbyggt varanlegt tjón og örorku þess fólks.

Að lokinni þessari umræðu treysti ég á góða og vandaða meðferð þessa máls í félags- og tryggingamálanefnd.