138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:40]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Það er alveg ljóst að samkomulag náðist við stjórnarmeirihlutann fyrir helgi um hvernig haga ætti málum við 2. umr. Það er engu að síður margt eftir ósagt og órætt, m.a. þær upplýsingar sem komu fram í dag. Þá krefst ég þess að hæstv. fjármálaráðherra sitji hér meðan við ræðum m.a. bréfaskipti undirmanns hans, eða yfirmanns eftir atvikum, varðandi Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Það er mikilvægt að hæstv. fjármálaráðherra og eftir atvikum aðrir innan ríkisstjórnar verði hér með okkur þegar við ræðum þessi atriði í dag. Umræðunni er ekki lokið þannig að menn verða að sýna Alþingi þá virðingu og hv. þingmönnum að vera hér viðstaddir alla umræðuna þar til henni verður vísað aftur til fjárlaganefndar.